Saga af tveimur gististöðum

krasnapolskyVið skiptum átta nóttum í Amsterdam milli tveggja staða. Fyrstu tvær næturnar létum við þann gamla draum rætast að dvelja á Grand Hotel Krasnapolsky við Dam Square, algjörri lúxusperlu í hjarta borgarinnar, sem á að hafa verið stofnað af fyrsta Pólverjanum sem fluttist til Hollands (byrjaði reyndar sem kaffihús en á sama stað). Fyrir það sem eftir lifði heimsóknarinnar völdum við hins vegar gistiheimilið Blaine’s Bed & Breakfast við Rijnburgstraat 24 í Oud-Zuid (gamla suðurhlutanum) og var það reyndar stórmerkileg reynsla.

Krasnapolsky er náttúrulega bara eins og uppskrift að alvöru fimmstirndu hóteli. Þykk teppi, langir gangar, fornir gluggar og tiltölulega lítil en einstaklega þægileg herbergi. Á framhliðinni bjóðast herbergi með frönskum svölum og útsýni yfir Dam-torgið. Þar verðum við næst! Dvölin var í einu orði sagt frábær, einu mistökin voru að borða ekki á Reflet, veitingastað hótelsins, sem er annálaður. Átlistinn var mjög erfiður og útilokað að komast í gegnum hann allan…einkum söknum við þess að hafa ekki fundið aftur líbanska veitingastaðinn sem til stóð að prófa á laugardaginn.

Við tékkuðum grátandi út á mánudeginum og greiddum 572 evrur. Gistingin sjálf kostaði þó ekki nema 199 (tilboðið Best Available Room sem ég get mælt með) en mikill burður herbergisþjónustunnar á tóniki til ginblöndunar og smávægileg gæðaúttekt á minibarnum sagði sitt. Það er tómt vesen að finna tónik í venjulegum búðum í Amsterdam, yfirleitt þarf að þvælast lengst út í úthverfin til að nálgast þessa auðlind. Eitt af fáu sem þessi þjóð klikkar á. Það er klárt að í framtíðarheimsóknum verðum við allan tímann á Krasnapolsky, ég mæli eindregið með þessu hóteli að öllu leyti. Auk þess erum við komin í neðsta þrep vildarklúbbsins hjá þeim og fáum þriggja prósenta afslátt af öllu næst. Það eru fjögur og hálft hvítvínsglas á bar í Amsterdam miðað við hótelreikninginn núna!!!
bb svalir
Þá voru það félagar okkar, Blaine og Peter. Þeir reka gistihús á fjórum stöðum í borginni auk veitingahússins Seasons Restaurant. Fjögurra nátta dvöl eða lengri fylgir ókeypis þrírétta máltíð fyrir tvo á veitingahúsinu þótt við höfum reyndar klikkað á því núna. Eins er morgunverður kl. 9 innifalinn í gistingunni sem kostar 90 evrur nóttin en við náðum honum reyndar aldrei á sex dögum enda höfum við aðrar hugmyndir um sumarfrí en að rífa okkur upp um miðja nótt fyrir appelsínusafa, brauð og hollenskan ost (sem er samt mjög fínn reyndar). (MYND: Svalirnar á herberginu okkar, ólýsanlega notalegar í næturhúmi. Í þessum stólum var hugsanlega sett heimsmet í gin og tónik drykkju dagana 11. – 17. júlí 2011.)

Við fengum snyrtilegt herbergi með hreint unaðslegum svölum þaðan sem útsýni var niður í hollenska bakgarða með fögrum trjám, runnum og jurtum. Hverfið er mjög kyrrlátt og eini hávaðinn örugglega frá okkur. Það merkilegasta var að í sex daga heimsókn sáum við aldrei aðra gesti. Við heyrðum skruðninga frá borðstofunni gegnum svefninn á morgnana en hittum aldrei neinn. Húsið er ekta hollenskt, fjórar hæðir, brattir þröngir stigar og gistirýmin aðeins á tveimur efstu hæðunum, fimm herbergi í allt. Gestir fá lykla að húsinu. Peter hittum við einu sinni, þegar við komum, og Blaine einu sinni, þegar við fórum. Eftir á að hyggja var þetta mjög grunsamlegt en rosalega þægilegt. Maður rölti nakinn fram á sameiginlegt klósett hæðarinnar um miðja nótt rétt eins og maður væri heima hjá sér.

Næstum eini gallinn var að einhver kvikindi stungu eða bitu okkur alveg í mauk. Þar voru þó ekki aðrir gestir á ferð heldur ósýnileg skorkvikindi, vonandi á svölunum frekar en í rúminu!!! Á mér voru talin 36 bit, tæplega eitt fyrir hvert ár sem ég hef lifað. Aldrei tók ég eftir þessu á meðan það átti sér stað þrátt fyrir að 11 af þessum bitum séu á hægri framhandlegg. Hvernig velja pöddur líkamshluta??
bb svalirii
Hinn gallinn var að þetta er hálfpartinn úti í rassgati. Sennilega tæki minnst 45 mínútur að labba niður á Leidseplein frá gistihúsinu. Fljótlega kom þó í ljós að sporvagn númer 2 ekur þessa leið og kostar 2,60 evrur farið. Þá tekur ferðalagið um 12 mínútur sem drepur engan. (MYND: Hluti útsýnisins af svölunum. Myndin segir svo sem ekkert mikið, maður þarf að vera á staðnum.)

Ég get mælt með báðum gististöðunum, hvorum á sinn hátt þó. Krasnapolsky fyrir lúxus og staðsetningu, Blaine’s Bed & Breakfast fyrir frábært næði (við vorum kannski bara heppin samt), notaleg herbergi og staðsetningu fyrir þá sem kjósa úthverfi. Þá er traust þeirra aðdáunarvert. Þarna var léttvín og alls konar drykkjarföng sem gestir gátu keypt. Á borðinu stóð svo posi og gert ráð fyrir að menn borguðu bara sjálfir. Gagnrýni á morgunmatinn verður því miður að bíða…sennilega til eilífðar.

Hér er heimasíða Blaine og Peter, hér er Krasnapolsky.

Athugasemdir

athugasemdir