Þá liggur það fyrir, próf 6., 8., 13. og 15. maí og við þar með vonandi laus úr viðjum olíubrunnfræða hvað bóknám varðar. Þetta eru mánudagar og miðvikudagar í tveimur samliggjandi vikum og ekki verri tímasetningar en hvað annað. Helgin á eftir er hvítasunnuhelgi með þeim óvænta norska bónus að þjóðhátíðardagurinn 17. maí er á föstudeginum svo úr verður óaðfinnanleg fjögurra daga helgi. Gerist sennilega ekki á hverju ári.
Ég er ekki hjátrúarfyllri en gengur og gerist en felldi þó eitt andlegt gleðitár yfir að 13. maí ber ekki upp á föstudag í ár. Sennilega bældar áfallastreituminningar frá prófi nokkru í almennri lögfræði og ágripi af réttarsögu föstudaginn 13. maí 1994 í Eirbergi, musteri hjúkrunarfræðinema og fyrir mig biðsal helvítis, þennan fallega vordag þar sem ég náði í fyrsta og eina sinn á ævinni að sólbrenna í skriflegu prófi innandyra. Fallinn með 6,2.
Fyrirkomulagið á prófunum í vor er kostulegt. Skólinn (Offshoreutdanning.no/Exsto Holding) er einkafyrirtæki sem heldur námskeið til undirbúnings borpallastörfum og útvegar til þess verkfræðimenntaða kennara með afburðaþekkingu á faginu. Hann kemur hins vegar ekki nálægt framkvæmd eða yfirferð prófanna. Í þau skráir nemandi sig á vefsíðunni PrivatistWeb sem heldur óháð og sótthreinsað utan um hin og þessi próf og annast framkvæmd þeirra í húsnæði framhaldsskóla um allt land, prófmaður velur bara fylki. Prófgjald er nokkuð vel útilátið og fæst að sjálfsögðu ekki endurgreitt nema próftaki leggi fram eigið lík sem sönnunargagn um forföll auk einnar skjáfylli af öðru smáu letri sem ég pirraði mig ekki á að gaumgæfa.
Þessi aðili fer svo yfir prófúrlausnir og skilar einkunnum til viðkomandi nemanda og eingöngu hans. Skólinn fær ekki eina einustu tölu, fallprósentu, meðaleinkunn eða aðra tölfræði. Ekki neitt. Nemanda er frjálst að greina skólanum frá gengi sínu á prófi en ber engin skylda til þess. Einu upplýsingarnar sem kennarar skólans fá er þegar þeir heyra annað slagið frá nemendum sem hafa fengið vinnu út á nám sitt. Kjaftfullt er út úr dyrum á öll námskeið þarna allt árið.
Hópurinn reyndi að veiða upplýsingar um fallprósentu og almennt gengi á prófum upp úr jarðfræðikennaranum okkar, Tore Grelland olíuverkfræðingi, í fyrirlestrum síðustu helgar en það eina sem hann svaraði var: “Ég hef aldrei heyrt um neinn sem hefur fallið.” Það var ekki fyrr en ég fór að skrá mig í prófin á PrivatistWeb í kvöld að ég áttaði mig á því að maðurinn var ekki að gera að gamni sínu (eins og verkfræðingar gera nú mikið af því).