Rusl – af hverju?

ruslÞað slefar í kraftaverk hvað þrjú lítil heimili geta skilað af sér miklum úrgangi, án efa yfirdrifið það sem ferðast með pípulögnum til sjávar en hér á ég fyrst og fremst við hið klassíska rusl sem svo kallast í daglegu tali.

Í pistli í maí 2010, þegar við vorum að stíga fyrstu skrefin hér á skandinavískri grund, býsnaðist ég yfir þeim ósköpum að þurfa að tileinka mér sorpflokkun og deila því sem til féll af heimilisúrgangi niður á þrjár tunnur eftir eðli og efnasamsetningu. Ég ætlaði aldrei að muna hvaða tunna var fyrir hvað. Ég kann það nú orðið.

Get játað það núna að þegar ég bjó einn í minni ástkæru íbúð við Bragagötu 16 í Reykjavík var samfélagsleg ábyrgð mín á sviði sorpflokkunar í algjöru lágmarki. Þetta nýttist þó íbúum hinna fjögurra íbúðanna í húsinu ágætlega, þótt þeir vissu minnst af því sjálfir, því ég notaði aldrei hina vinsælu sorprennu sem lá lóðrétt gegnum húsið og endaði sem op ofan við ruslatunnu í þar til gerðri kompu í gangstéttarhæð. Hvað gerði ég þá? Það var raunar einfalt.

Ég átti mér stóra plasttunnu sem stóð í opinu þar sem konan, sem átti íbúðina á undan mér, hafði uppþvottavél sína. Í henni hafði ég svartan ruslapoka og henti svo öllu rusli, hvaða nafni sem nefndist, í þetta svarthol. Á laugardögum var það svo yfirleitt mitt síðasta verk áður en ég gekk Bakkusi á hönd að aka með poka þennan út í Sorpu við Ánanaust, grýta honum sakleysislega í pressugáminn sem merktur var “Óendurvinnanlegt” og gera mér upp háan hnerra þegar áfengisflöskur, mismargar eftir árstíma, mölbrotnuðu við lendingu en þær, og ótalmargt annað í pokahorninu, áttu einmitt alls ekki heima í téðum gámi. Svo ók ég heim sæll og glaður og fannst ég umhverfisvænasti einstaklingur í Evrópu, búinn að spara mér fjóra eða fimm litla plastpoka sem hefðu örugglega endað einhvers staðar úti í guðsgrænni náttúrunni og eyðilagt líf einhverrar jurtar.

Einhverjir spyrja nú væntanlega hvort matarleifar hafi ekki snemma í vikunni farið að lykta í tunnunni. Það voru engar matarleifar, ég kláraði bara matinn enda borðaði ég eingöngu 1944 rétti, brauð og fæðubótarefni í pillu- og duftformi auk þess að drekka kaffi og brennivín.

Nú er líf mitt gjörbreytt, aðallega vegna þess að háttsemin sem lýst er hér að ofan er ómöguleg í Noregi. Nálgist ég Sorpu hér, eða IVAR eins og fyrirbærið heitir, þarf ég að borga fyrir það, alveg sama hvort ég er einstaklingur eða fyrirtæki. Reyni ég að svindla og henda öllu í þá tunnu sem almennt er minnst í lendi ég fyrr eða síðar í tilviljanakenndri úttekt hjá ruslakörlunum og fæ skammir og sekt auk þess sem ég má gera ráð fyrir ítarlegri sorprannsókn hvenær sem er eftir það.

Stærsta vandamálið er að svarta tunnan, almennt óendurvinnanlegt sorp, fyllist á þremur dögum í þriggja íbúða húsi á meðan aldrei er nema botnhylur í þeirri brúnu sem er fyrir matarafganga. Bláa pappatunnan getur svo verið ærið misjöfn. Yfirleitt er því mikill léttir þegar hálfsmánaðarleg tæming svörtu tunnunnar stendur fyrir dyrum og einhver í húsinu (ég núna í kvöld) dröslar henni upp á götu þar sem hún bíður örlaga sinna. Ekki þarf að taka fram að gleymist að fara með tunnuna er hún ekki tæmd. Þetta fengum við gjarnan að reyna á búsetutíma okkar í Stavanger þegar tæming var á mánudagsmorgnum og tunnan vildi gleymast á sunnudegi. Þá voru þeir ófáir pokarnir sem teknir voru með í vinnuna niðri á spítala og dreift ísmeygilega í ýmsar ruslatunnur þar svo lítið bar á. Heilbrigðiskerfið er ekki bara biðraðir.

Mig dreymdi einu sinni draum sem ég hugsa oft til og vildi gjarnan að væri raunveruleiki. Þá var fyrirkomulagið þannig að maður fór á Sorpu, náði þar í rusl og fór með það heim þar sem það eyddist upp og varð að orku til rafmagns og húshitunar. Ótrúlega sniðugt. Er ekki hægt að græja þetta einhvern veginn í staðinn fyrir að vera alltaf að stússast í einhverjum virkjunum?

Athugasemdir

athugasemdir