Stefán Pálsson skrifar hörkuskemmtilega en um leið sorglega frásögn á ágæta bloggsíðu sína um rúmenska fjölskyldu á hrakhólum á Íslandi og reyndar meira en það, á algjörum villigötum líka því fólkið virðist hafa verið með það á beinu að á Íslandi væri enn 2007 og vantaði ógrynni fólks í vinnu. Kannski frétti það bara af þessu árið 2007 og var svona lengi að öngla saman fyrir flugmiðanum. Hver veit?
Ég á náttúrulega að vera að lesa fyrir próf og finn mér því flest annað til dundurs svo ég ákvað að þakka Stefáni stuttlega fyrir athugsemdina í athugasemdakerfinu hans og missti mig auðvitað í hefðbundin orðvaðal. Af því að útlendingaumræða, neikvæð sem jákvæð, er hávær hérna líkt og á Íslandi (ég ætti að vita það sem er sjálfur útlendingur hér) ákvað ég að birta athugasemdina mína sem pistil hér, hvort tveggja vegna almennrar umræðu í evrópskum þjóðfélögum og þess að fyrst ég er núna búinn að taka svona langa pásu frá bókunum get ég tvínýtt textann sem athugasemd til Stefáns og pistils hér. Svona er ég nú inn við beinið, hrokafullur í garð útlendinga og nískur á tíma minn.
Þetta ritaði ég Stefáni:
Meitluð frásögn. Skil að ástand fólksins renni þér til rifja en ásakaðu sjálfan þig þó ekki fyrir röng viðbrögð. Raunar gerðirðu meira en 98% venjulegs fólks hefðu gert.
Ég spyr eins og aðrir, hvernig má það vera að íbúar Balkanskaga láti sér detta í hug að á Íslandi drjúpi smjör af hverju strái? Fréttir af hruninu náðu nægilega langt til að 11 ára gömul stúlka í Pakistan, sem ég greiði mat og skólagöngu fyrir gegnum ABC barnahjálp, sá ástæðu til að biðja Íslendingum allrar blessunar eftir þessa helför, í bréfi sem hún skrifaði mér 2009.
Maður skilur frekar að Rúmenar flykkist hingað til Noregs sem þeir gera sannarlega enda eru rúmenskir betlarar í miðbæ Stavanger löngu orðnir þrætuepli í fjölmiðlum staðarins og mikið rætt um að fara að stemma stigu við þeim. Þar er heldur ekki á ferð mjög heiðarlegt fólk, án þess að ég ætli að vera með fordóma, því það er oft ágætlega til fara, gjarnan með heilu pizzurnar í kassa og rjúkandi kaffi latte frá næsta kaffihúsi í bolla (latte hér kostar frá 800 íslenskum krónum) og dónalega ágengt við vegfarendur. Maður sér strax að þarna eru fagmenn í greininni, atvinnubetlarar sem ætla sér allt annað en að vinna sig upp úr betlinu. Þeir eru í framtíðarstarfinu. Fólkið deilir hástöfum um bestu hornin og staðina og til að bíta höfuðið af skömminni er það svo (í sumum tilfellum) sótt á einkabílum að loknu dagsverkinu. Þetta hleypir illu blóði í suma…ekki mig, mér er nokk sama, en ég skil sjónarmiðið.
Þú hefur með þessu án efa verið ein besta landkynning sem Ísland og fjórmenningarnir gætu átt von á, Stefán, enda heiðursmaður fram í fingurgóma eins og ég þekki þig. Og frásögnin góð aflestrar eins og annað á blogginu hjá þér. Takk fyrir það.