Rótarboðsháttur og fleiri geðsjúkir hættir sagna í færeysku

p4270244Ég er að sjálfsögðu félagi í Íslenska málfræðifélaginu og bíð þess ávallt með eftirvæntingu að ársrit félagsins, Íslenskt mál og almenn málfræði, berist um lúgu mína. Slíkt gerðist í dag og skókst húsið þegar ritið féll inn um lúguna enda efni þess meiri háttar þungavigtarboðskapur öllum þeim er láta sig varða íslenskt mál og málfræði en það eru að mínu viti spakleg fræði og vitsmunaleg.

Þetta var 30. árgangur sem skall þarna á gólfinu, helblár og allur digur um sig. Ritarar ársins eru margir og fróðir. Fyrst til að fanga athygli mína var fluga eftir Hjalmar P. Petersen sem ber hinn hljómfagra titil Tann nýggi noktandi rótarboðshátturin í føroyskum. Engum þarf að vefjast það lengi að hér fjallar virtur fræðimaður augljóslega um hætti sagna í því brjálæðislega en íðilfagra tungumáli frænda okkar og nágranna, Færeyinga. Það hlýtur að vera mögnuð þjóð sem skartar einstaklingum á borð við Alla veski og Tórd inni í stovu, annar sennilega ríkasti maður Færeyja en hinn sá heimakærasti.

Greinin um rótarboðshátt er snilld frá rótum. Petersen rýnir þarna í orðaröð í færeysku með hliðsjón af notkun sagnahátta, einkum svonefnds neikvæðs boðháttar, sem er ný tegund boðháttar í færeysku, og verður nokkuð vel úr verki eða eins og hann lýsir því sjálfur þar sem hann fjallar um röð frumlags og umsagnar:

Um boðshátturin er noktandi, stendur noktanin aftan fyrir boðsháttin, sum sæst í […] Men tað ber eisini til at nýta navnhátt í staðin fyri noktandi boðshátt […]

(2) a. Ikki fara! /*Fara ikki!
b. Ikki siga tað!/*Siga ikki tað!

Þetta eru stórskemmtilegar athuganir og Petersen vísar í ýmiss konar notkun á rótarboðsháttinum sem hann ‘hevur funnið á internetinum’ og ég verð nú þarna fyrst að láta í ljós þann ljóð á ráði Færeyinga að þeirra fremstu skrifarar á sviði málvísinda virðast ekki hafa komið sér upp efnilegra heiti á lýðnetinu en að nefna það internetinn (að því gefnu að þarna sé að ræða karlkynsorð sem fær nefnifallið interneturinn eða interneturin. Þarna hefði verið lag fyrir frændur okkar að sprengja skalann með annálaðri orðsmíði á borð við førneturin eða grindneturin (í höfuðið á hörðustu vísindum Færeyinga, fjöldamorðum grindhvala).

Petersen vísar í ekki ómerkari fræðinga en Heine og Kuteva (2005) og er þar varla um skáldið Heinrich Heine að ræða sem löngu fyrr hafði safnast til feðra sinna. Hann vísar þar í hugtakið málreplikatión og á þar við áhrif erlendra tungumála. Tilfært er dæmið ‘don’t go’ úr saxnesku engla en næst færir höfundur sig yfir í arbeiðshátt sem óneitanlega minnir á hið íslenska tækisþágufall (lat. dativus instrumentalis) en kemur þó af dæmum vart heim og saman við það þar sem dæmi eru nefnd á borð við þetta:

Ikki taka fløskurnar, sum standa á borðinum!

Ég tel þá setningu leggja góðan endapunkt við fróðlega grein Hjalmars Petersen en finn mig samt knúinn til að ljúka skrifum mínum með kynngimagnaðri setningu höfundar: ‘Hetta hendir serliga hjá ungfólki, t.e., hjá teimum, sum brúka meira enskt í gerandisdegnum.’

Og að lokum, IKKI SIG AT EG ENDI I HELVITI!!!

Athugasemdir

athugasemdir