Reykjavík er jólaborg CNN

cnn go.jpgTiffany Lam skrifar athyglisverða grein á ferðavef CNN fyrir nokkrum dögum og velur þar Reykjavík í toppsæti lista yfir borgir þar sem snjallt sé að verja jólunum. Nuremberg í Þýskalandi og Pogost í Hvíta-Rússlandi lentu í næstu sætum á eftir. Lam telur Íslandi helst til tekna í tengslum við jóladvöl að þangað sé upplagt að fara með börn. Íslensk þjóðtrú geri ráð fyrir heilum þrettán jólasveinum í stað þess eina sem 300 milljónir Bandaríkjamanna þurfa að deila með sér.

Eins nefnir hún jólaþorpið í Hafnarfirði og að sjálfsögðu að Íslendingar fagni jólunum frá því í nóvember og fram í janúar. Hún lætur þess ógetið að nokkrar íslenskar verslanir fagna jólum frá því um miðjan september. Tiffany þessi ræðir áfram um jólasveinana og bendir á nöfn þeirra sem séu eins og upp úr ævintýrum bræðranna Grimm. Nefnir hún þar sérstaklega Door slammer og Spoon licker. Væntanlega hefur hún ekki viljað eyðileggja ævintýrið fyrir börnunum með því að telja upp þá Meat hook og Sheep house pole að öðrum ólöstuðum.

Helstu rök Lam fyrir ánægjulegri dvöl útlendinga í Reykjavík um jólin hefðu þó að sjálfsögðu mátt vera tengd stöðu íslensku krónunnar en á hana minnist hún ekki einu orði. Óháð gjaldeyrismálum verð ég þó að fallast á það með blaðamanni að Reykjavík er einstaklega ánægjulegur staður til að verja jólunum á og við hlökkum mikið til að lenda í Keflavík eftir þrjár vikur.

Ekki er þar með sagt að við ætlum ekki að prófa norska jólastemmningu að einhverju leyti. Helsta aðgerðin í þessu efni verður að reyna hinn dularfulla jólaþorsk lutefisk sem ég hef oftar en einu sinni ritað um hér. Ljóst er að þetta verður einhvern næstu daga, við eigum í raun bara eftir að velja okkur veitingastað sem verður ekki flókið, flestir málsmetandi veitingastaðir í Stavanger bjóða upp á lutefisk frá því snemma í nóvember og fram að jólum. Með honum er drukkið ákavíti. Ítarleg umfjöllun um þetta sem sagt fram undan og hugsanlegt myndband af fyrsta bitanum. Ég er bara svo hræddur um að þetta sé viðbjóður…

Athugasemdir

athugasemdir