Reyðarfjörður – best geymda leyndarmál Austfjarðaþokunnar

reydarÉg skal alveg játa það að ég taldi mig ekki eiga það eftir að láta frá mér á prenti þau orð sem sjá má í fyrirsögn þessa pistils en sannlega segi ég yður að trú mín var ekki næg. Nú um hvítasunnuna var ég svo lánsamur að dvelja í góðu yfirlæti og blómguðu dalanna skauti á Reyðarfirði, þar sem heljarmikil ál-fabrikka (bandstrik svo að fólk haldi ekki að verið sé að búa til álfa þarna) hins ameríska Alcoa hefur sett svip á bæjarlífið undanfarið. (MYND: Tekið á því á svölunum. Ásgeir Elíasson á myndavélinni.)

Þarna starfar vinafólk okkar Rósu, þau Ásgeir Elíasson og Jóna Dís Þórisdóttir, við framleiðslu áls á 12 tíma vöktum og búa í einkar skemmtilegu húsnæði við Heiðarveg þar sem skjólgóðar svalir í vestur mynda kjörið athvarf til drykkju og hreina Spánarstemningu en við vorum greinilega svo heppin að eyða helginni á eina góðviðrissvæði landsins um nýliðna helgi – og það án þess að fá okkur álstrípur.

Ætli við höfum ekki fengið að njóta 18 – 20 gráða hita miðað við Celsíus um helgina og varla bærðist hár á höfði (enda engum til að dreifa á þeim sem hér ritar). Reyðarfjörður er einn af sjö kaupstöðum utan höfuðborgarsvæðisins sem státar af Quizno’s-veitingastað (mæli þó ekki með álbátnum, hann er frekar málmkenndur) auk þess sem stóru tryggingafélögin þrjú eiga þarna öll sín útibú. Þá má ekki gleyma metnaðarfullri áfengisverslun og dýru bensíni auk gríðarlegrar náttúrufegurðar.

Það var ekki fyrir hvern sem er að aka til Reyðarfjarðar föstudaginn 29. maí 2009, ég get alveg vottað það. Við byrjuðum í nístingskulda, slyddu, éljum og sennilega um 100 metra á sekúndu mótvindi til Víkur í Mýrdal. Þá sprakk hægra framdekk bifreiðarinnar nokkrum sekúndum áður en rennt var inn á Kirkjubæjarklaustur. Þar reyndist vera hjólbarðaverkstæði undir þaki Bifreiðaverkstæðis Gunnars og lagði Gunnar fram alla sína þjónustulund, seldi ferðalöngunum notað dekk og skipti um á sænsku þrumunni. Rúmum 300 kílómetrum síðar, í myrkviðum Berufjarðar, sprakk það dekk. Þá vildi svo til að föruneytið var einmitt statt við bæinn Runná sem státar sennilega af stærsta bílakirkjugarði á gervöllu Austurlandi. Hafþór, ábúandi þar, átti hjólatjakk, loftdælingarbúnað og allt sem við á að éta og var nú varadekk bifreiðarinnar, svokallaður aumingi sem svipar mjög til hjólbarða barnavagns, settur undir. Reglur aumingjans kváðu á um hámarkshraðann 70 kílómetra miðað við klukkustund þá tæpu 100 kílómetra sem eftir lifðu til Reyðarfjarðar og hófst nú erfiðasti kafli ferðarinnar.

Auk þess sem brennivínsþorsti var farinn að segja allverulega til sín hjá ökumanni voru nú 70 km skorðurnar settar og var það ekkert grín. Silast var gegnum Breiðdalsvík, Stöðvarfjörð og Fáskrúðsfjörð og einu sinni þegar gerð var tilraun til að svindla og aka á 80 km hraða gaus upp ótvíræð gúmmíbrennslulykt sem gaf til kynna að slíkt svindl gæti aðeins endað á hafsbotni. Áhöfnin tók því gamla æðruleysið á þetta og að loknum nánast óendanlegum Fáskrúðsfjarðargöngum birtist Reyðarfjörður, bjartur og fagur. Aldrei hefur gin og tónik bragðast jafn-vel og það gerði klukkan langt gengin í tíu þetta fagra föstudagskvöld.

Eina perlu Reyðarfjarðar get ég ekki látið ónefnda áður en ég legg lokapunktinn við ritling þennan og fer á forsýningu Terminator Salvation í boði Guðmundar Breiðfjörð vinar míns, markaðsstjóra Senu, en það er bar Reyðfirðinga, hið magnþrungna Kaffi Kósý. Kaffi Kósý er mjög kósý svo ekki sé meira sagt. Þar er hægt að fá Bombay-gin og tónik á gamla verðinu og spjalla við fólk sem ber jafnvel undarlegri viðurnefni en Hænsa-Þórir og Hólmgöngu-Skeggi í eynni Söxu.

Hver er boðskapurinn? Jú, atlisteinn.is mælir hiklaust með Reyðarfirði sem áfangastað innanlandsferðaþyrstra og gjaldþrota Íslendinga sumarið 2009. Þetta er fjörður sem óhætt er að reiða sig á. Reyðarfjörður – lengra í burtu en þú heldur en alveg þess virði (OK, þetta er stolið frá Sandgerðismottóinu nær en þig grunar).

Athugasemdir

athugasemdir