Regin Freyr Mogensen – in memoriam

reginEðlilega bar meira á sumum einstaklingum en öðrum á göngum Fjölbrautaskólans í Garðabæ við Lyngás á öndverðum lokatug liðinnar aldar. Líklegast eru það engar ýkjur að mörgum FG-ingum þessa tíma líði seint úr minni tröllslega vaxin mannvera, svipmild og bjarteyg, og prýdd svo veglegu faxi eldrauðu að nær mátti drepa því undir belti að hætti fornhetja. Kúrekastígvél voru staðalbúnaður og þótt furðu sætti komst allt þetta fyrir ásamt skólatösku í fagurbláum Suzuki Swift, litlum og allfornum.

Var þarna kominn Regin Freyr Mogensen, víkingur úr Hafnarfirði er ákvað að gera strandhögg í framhaldsnámi í Garðabæ og hefur nú beðið lægri hlut í harðri baráttu við krabbamein er stóð að heita má frá næstliðnum áramótum. (MYND: Larger than life, eins og alltaf. Júlí 2013.)

Haustið 1991 flutti ég mig úr Menntaskólanum í Reykjavík og settist á skólabekk í fjölbrautinni sem þá var haldið úti í tveimur heimilislegum húskofum í því sem þá var nánast jaðar Garðabæjar. Tókust kynni okkar Regins nánast strax enda ekki af ólíku sauðahúsi, tónlistarsmekkur líkur og gamli vinahópurinn minn úr Garðabæ orðinn hans eins og hendi væri veifað. Þá skemmdi ekki að ég hafði heyrt sögur frá vinum af fróðlegum samskiptum Regins við Stefán stærðfræðikennara Árnason og lék nokkur forvitni á að vita meira um þennan rauða turn sem lyfti lóðum eins og berserkur í “svitaholunni hans Júlla Bess,” eins og hann lýsti því sjálfur.

Það er geysilega erfitt að skrifa stutta minningargrein um mann sem væri efni í þriggja binda ævisögu og helst heimildarmynd í fullri lengd líka en nú stikla ég alveg á því stærsta. Tónlistina í lífi Regins verður maður einhvern veginn að staldra við fyrst. Þar skein stjarna hans skærast í hljómsveitinni Bone China sem ég mun aldrei skilja hvers vegna var nefnd eftir hágæða postulíni en það hefur án efa eitthvað með andstæður að gera.

’68 Gibson Custom Made-gítarinn hans Regins var ef til vill eins og tannstöngull utan á þessu rauða bákni en sambandið milli þeirra þó ekki síðra en það sem Beethoven átti við píanóið. Þeir sem fylgdust með hinni mjög svo líflegu tónlistarsenu Fjölbrautaskólans í Garðabæ á árunum upp úr 1990 muna margir eftir sterkum tónleikum Regins og félaga í matsal skólans þar sem þeir gerðu meðal annars lagi Suicidal Tendencies, Send Me Your Money, ótrúlega góð skil og ekki var síður eftirminnilegt þeirra eigið frumsamda View of Life sem öðlaðist myndband í harðri leikstjórn Sigurðar Runólfssonar söngvara.bone china (MYND: Bone China 1992, Regin efst fyrir miðju, niðri f.v. Einar Már Björgvinsson, Sigurður Runólfsson, Davíð Torfi Ólafsson og Þórarinn Freysson.)

Bone China og Jet Black Joe voru hljómsveitir sem áttu sterk tengsl við Fjölbrautaskólann í Garðabæ enda liðsmenn þeirra meira og minna nemendur við skólann. Þegar hljómsveitin Rage Against the Machine var gestur Listahátíðar í Hafnarfirði og lék fyrir dansi í Kaplakrika 12. júní 1993 valdist Jet Black Joe sem upphitunarsveit á tónleikunum. Lauk kvöldinu með mikilli bjarmalandsför þar sem gestunum var kynnt næturlíf Reykjavíkur og þreyttist Regin ekki að segja söguna af því þegar umboðsmaður Rage æddi um miðbæ Reykjavíkur við dagrenningu í örvæntingarfullri leit að trommuleikaranum sem átti að vera löngu búinn að skila sér í flug en sást síðast vel við skál í Bankastræti og enginn vissi meir.

Einnig var oft glatt á hjalla í skólanum þá sjaldan nemendur höfðu tíma til að sinna honum fyrir meira freistandi lystisemdum þessa heims. Ég sat ekki marga áfanga með Regin, þykist muna eftir honum með mér í íslensku hjá Bjarka Bjarnasyni haustið 1991 og í Landafræði-113 hjá heiðursmanninum Má Vilhjálmssyni stúdentsvorið okkar, 1993. Sú landafræði snerist því miður ekki um bruggun landa heldur var þarna komin veður- og haffræði svokölluð. Einhverju sinni leiddist Má að þylja fræði sín um veðrakerfi, bólstraský og hitahvörf í síðasta tíma á föstudegi yfir bekk sem talaði ekki um annað en brennivín og komandi helgi svo hann skipti í lið og stofnaði til gálgaleiks (e. hangman fyrir flesta lesendur undir fertugu). Regin Mogensen sló þar eftirminnilega í gegn og var lengi síðan af sumum samnemenda sinna talinn rammskyggn eftir að hann giskaði strax, með aðeins “e_ _a_a _ _ _o_” að vopni, á orðið “endaþarmsop” frá undirrituðum sem hefði að öllu jöfnu átt að jarða alla mótstöðu þegar. Sneri Regin sér þá til hálfs í sæti sínu, augun logandi af ísmeygilegri kerskni undir rauðum hraunfaldinum, og sagði: “Ég þekki mitt heimafólk.”

Frásagnargáfa var einnig eiginleiki sem Regin hafði fengið stærri skammta af í vöggugjöf en fólk flest og hefðu margir gamlir sagnameistarar af norrænu og keltnesku bergi hiklaust tekið ofan fyrir honum og gera sennilega nú á ódáinsökrum annarra heima. Orðfærið þegar Regin sagði frá hlutum sem voru honum af einhverjum sökum hugleiknir var alveg sérstakt og hann færðist í einhvers konar draumaham sem hreif áheyrandann með, það var með einhverjum hætti alveg ljóst að hann var að segja frá hlutum sem voru honum verulega hugstæðir og maður varð svo nálægur í upplifun hans. Slíkt er ekki allra, svo langt í frá.reginii

Ég gæti skrifað hér næturlangt um samskipti mín við Regin Frey Mogensen. Sem betur fer fylgdumst við að til háskólanáms og þar varð svo til vinahópur sem hittist síðast í júlí á þessu ári og átti góða stund saman á Álftanesinu. Ég kveð þennan rauða hvirfilbyl með söknuði, virðingu og endalausu veganesti af minningum. Söru Lind og börnunum biðjum við Rósa allrar blessunar í þessu grimma éli en öll él birtir þó upp um síðir.

Vegna nokkurra staðreynda í þessum línum hefur reynst ómetanlegt að fletta upp í Einari Má Björgvinssyni og Guðfinni Sölva Karlssyni. Takk strákar, þið voruð þarna. (MYND: Þingvallaferð lagadeildar Háskóla Íslands 7. október 1994, frábær tími ekki síður en FG.)

Athugasemdir

athugasemdir