Rauðhærðir risar, samningaréttur og fleira smálegt

hilliÉg fór í ánægjulega heimsókn í hádeginu í dag til Hilmars Veigars Péturssonar, æskuvinar úr Garðabænum og forstjóra tölvuleikjarisans CCP. Hilmar hefur verið kjörinn fjórði áhrifamesti maður heims í tölvuleikjabransanum af einhverjum tímaritum og sjálfur vil ég halda því fram að hann sé pottþétt rauðhærðasti maður tölvuleikjabransans. Það hlýtur bara að vera. (MYND: Við Hilmar í árlegum endurfundum Garðbæinga árið 2007. Hann augljóslega vanur mér dauðadrukknum eins og sést á umburðarlyndum svip hans.)

CCP er í feiknaskemmtilegu húsnæði úti á Granda þar sem áður var til húsa Bæjarútgerð Reykjavíkur. Annað fyrirtækið gerir út skip en hitt geimskip eins og Hilmar sagði. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem þarna og húsnæðið er alveg dúndur, helsta stoltið 8.000 lítra fiskabúr með ýmsum framandi sjávarlífverum, þar á meðal eina kóralrifinu á Íslandi…eða einu af fáum alla vega ef einhverjir fleiri eru að dunda sér við að rækta kóralla heima hjá sér eða í vinnunni.

Þetta fyrirtæki hefur siglt lygnan sjó gegnum kreppuna hér heima, líf og fjör á öllum hæðum, flott mötuneyti og allt fyrirtækið á leið á fimm daga árshátíð til Mexíkó á morgun ef hægt verður að fljúga þangað vegna ösku. Alveg glimrandi að heimsækja íslenskt fyrirtæki þar sem ekki er allt á hraðleið í gjaldþrot heldur þvert á móti. Ég dáist að þolinmæði Hilmars og félaga að standa í þessum rekstri hér í fjandsamlegu skattaumhverfi og öðrum heimatilbúnum þrengingum bankamafíu og ónýtra stjórnvalda. CCP fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands í síðustu viku sem sýnir að Ólafur kann þó að meta fleira en gervilandvinninga. Svona á að gera þetta.

Annað fyrirtæki sem stóð upp úr í dag er Samskipti í Síðumúla. Þeir hönnuðu fyrir mig þennan líka flotta límmiða á geisladiskinn með verklega hluta MA-ritgerðarinnar minnar sem fylgir hverju eintaki hennar (í plastvasa með svo hrikalegu lími að ef þú setur hann skakkt á í byrjun skaltu bara sætta þig við það ef þú ætlar ekki að rífa kápuna í tætlur). Þetta hristu þeir fram úr erminni á þremur tímum og fyrir vikið skilaði ég ritgerð og diski í fimm eintökum á skrifstofu félagsvísindasviðs HÍ klukkan 15:00 í dag. Tveimur dögum og tveimur klukkustundum fyrir lokafrest og um það bil einu tonni af mér létt.

Þar sem keyrslan var hafin tókum við okkur til og útskrifuðumst úr Norsku II hjá Mími sem lauk í dag og fórum svo heim að pakka. Einnig barst tilboð frá Eimskip í dag og fyrir þá sem eru að velta fyrir sér flutningum kostar 737.878 krónur að flytja 40 feta gám héðan og til Stavanger. Athygli vakti þetta í skilmálunum:

Gámur kemur á grind í Noregi. Engin lyfta eða rampur og bílstjóri hjálpar ekki. Innifalið í tilboðinu er 1 klst til losunar. Eftir það kostar hver klst 500 NOK.

Já, sæll! Eins gott að vera snöggur að moka út úr einu stykki 40 fetara, 11.000 kall klukkutíminn eftir þann fyrsta. Bílstjóri hjálpar ekki. Honum hlýtur í raun að leiðast mun meira að verða bara að hanga og gera ekki neitt samkvæmt samningsskilmálum. Þetta er skólabókardæmi um staðlaða samningsskilmála í farmflutningum sbr. kafla í ágætu riti Páls Sigurðssonar, Samningaréttur (Reykjavík: Bókaútgáfa Orators, 1987).

Athugasemdir

athugasemdir