Rauð jól

p9050128Þá er jólarauðvínið komið í gang og gerjast eins og fjandinn strax frá fyrsta degi. Þykknið er kalifornískt cabernet-vín, ekki mitt uppáhaldsland í rauðvínum en engu að síður gaman að sjá hvernig útkoman verður. Þetta er flóknara en hvítvínið og þarf að vera á flöskum í tvo til fjóra mánuði áður en þess er neytt. Búast má við að átöppun verði um næstu mánaðamót og þá ætti vínið að smellpassa með hangikjötinu á jóladag. Geri þó fyrirvara um að þetta er mín fyrsta rauðvínslögn. (MYND: Hvar þú náir að kaupa kút/kastaðu þar til öllu./Sofnaðu ei fyrr en sopið er út/sofnaðu ei fyrr en sopið er út/með sveinaliðinu snjöllu. -Úr Pontusrímum eldri)

Það er ekki hægt að kvarta yfir frammistöðu Ámunnar í framboði á víngerðarvörum og -efnum. Miðað við sullið sem ég var að smakka hjá þeim vinum mínum, sem lögðu stund á léttvínsgerð í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar, verð ég að segja að tækninni hefur fleygt fram og rétt rúmlega það. Ótrúlegt er að fyrir 7.990 krónur megi fá þykkni sem nægir til að framleiða 23 lítra af bara töluvert ljúffengu 13% hvítvíni. Þetta er búbót þegar þriggja lítra belja af mjög svipuðu kostar 4.500 krónur hjá ríkisvaldinu.Ríkið, það er ég,sagði Loðvík XIV.

Það er skemmtilegt að dunda sér við gerð matarvína og ég get ekki neitað því að ég bíð spenntur eftir að tilraun Guðjóns Arnars Kristjánssonar, fyrrverandi háttvirts þingmanns, til að berja í gegn samþykkt frumvarps til breytingar á áfengislögum nr. 75/1998 verði endurtekin og í það skipti samþykkt með 63 atkvæðum gegn engu. Vitlausari hlutir hafa verið samþykktir á þingi landsins, til dæmis ríkisábyrgð á Icesave-samningum brjálæðinga.

Í frumvarpi Guðjóns (og fleiri) sagði meðal annars í greinargerð: Flutningsmenn telja að rétt sé að lagfæra áfengislögin þannig að framleiðsla léttvíns með tilgreindum hráefnum verði leyfð. Með því aukna frelsi sem hér er lagt til gæti innan fárra ára orðið til þekking við gerð matarvína sem kynni síðar að verða séríslensk framleiðslu- og verslunarvara, t.d. vín úr hreinni náttúruafurð eins og íslenskum berjum.

En ekki hvað? Ég hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur. Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður segir í ræðu 12. október 2004 í umræðu um lækkun virðisaukaskatts: Í umræðunni fyrr í dag benti ég sérstaklega á mikilvægi þess að endurskoða vörugjöld og háa álagningu á léttvín. Það er mjög mikilvægt til að byggja undir ferðaþjónustuna í landinu ásamt því að bæta vínmenningu Íslendinga og gera fólki kleift að nota léttvín. Þá brosir hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson enda held ég að hann ætli að leggja fram frumvarp um að heimila fólki að brugga léttvín heima hjá sér. Það er sjálfsagt mál og verður gaman að ræða það hér síðar í vetur.

Með þessum ummælum tel ég varla að fólk þurfi að velkjast í vafa um vilja löggjafans. Tekið skal fram að síðari tilvitnunin er í mann sem síðar gegndi embætti viðskiptaráðherra með sóma og var aldrei annað en málefnalegur í embættisfærslu, orði og æði.

Ljóst er því að Alþingi þarf að halda þessu brýna máli áfram um leið og spurningalisti hæstvirts Evrópusambandsstækkunarmeistara, Olli Rehn, hefur verið fylltur út en það ætti að vera létt verk og löðurmannlegt í hinni gegnsæju stjórnsýslu sem við Íslendingar höfum skartað síðan við ákváðum að setja okkur stjórnsýslulög árið 1993.

Athugasemdir

athugasemdir