Þá er jólarauðvínið komið í gang og gerjast eins og fjandinn strax frá fyrsta degi. Þykknið er kalifornískt cabernet-vín, ekki mitt uppáhaldsland í rauðvínum en engu að síður gaman að sjá hvernig útkoman verður. Þetta er flóknara en hvítvínið og þarf að vera á flöskum í tvo til fjóra mánuði áður en þess er neytt. Búast má við að átöppun verði um næstu mánaðamót og þá ætti vínið að smellpassa með hangikjötinu á jóladag. Geri þó fyrirvara um að þetta er mín fyrsta rauðvínslögn. (MYND: Hvar þú náir að kaupa kút/kastaðu þar til öllu./Sofnaðu ei fyrr en sopið er út/sofnaðu ei fyrr en sopið er út/með sveinaliðinu snjöllu. -Úr Pontusrímum eldri)
Það er ekki hægt að kvarta yfir frammistöðu Ámunnar í framboði á víngerðarvörum og -efnum. Miðað við sullið sem ég var að smakka hjá þeim vinum mínum, sem lögðu stund á léttvínsgerð í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar, verð ég að segja að tækninni hefur fleygt fram og rétt rúmlega það. Ótrúlegt er að fyrir 7.990 krónur megi fá þykkni sem nægir til að framleiða 23 lítra af bara töluvert ljúffengu 13% hvítvíni. Þetta er búbót þegar þriggja lítra belja af mjög svipuðu kostar 4.500 krónur hjá ríkisvaldinu.