‘You ask for cash but all you get is ash!’ eru nýjustu ummælin um Ísland hjá norska ríkisútvarpinu NRK samkvæmt vinafólki mínu í Stavanger. Þessi setning ásamt öðrum rennur nú yfir skjáinn í miðjum fréttatíma NRK um eldgosið. Að öllum líkindum er hún þó ekki runnin undan rifjum þeirra NRK-manna en þeir birta SMS-skilaboð frá áhorfendum neðst á skjánum með stuttu millibili. Skilaboðin eru þó alla jafna ritskoðuð áður en þeim er hleypt á skjáinn en það ber í raun vott um að ritskoðendur norska ríkisútvarpsins telji ummælin réttmæt. Og sannarlega eru þau það. (MYND: Björgólfsfeðgar gætu ef til vill tekið sér lán með veði í gosmekkinum./Marco Fulle/Barcroft media)
Fyrst blekkjum við mörg hundruð þúsund sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi og örskömmu seinna stöðva atburðir hér allt flug í Evrópu. Það er ekki erfitt að ímynda sér hverjir yrðu ekki kosnir vinsælasta þjóð heims um þessar mundir. Þetta minnir mig allt saman á gamla brandarann um manninn sem lá í sjúkrarúmi sínu og læknirinn kom grafalvarlegur inn og sagði: ‘Við þurfum að taka af þér fótinn.’ Maðurinn sætti sig við það með eftirgangsmunum og gekkst undir aðgerðina. Daginn eftir kom læknirinn aftur til hans og sagðist færa góðar fréttir og slæmar. Þær slæmu væru að skurðlæknarnir hefðu fyrir mistök tekið af honum rangan fót. Góðu fréttirnar væru hins vegar þær að það þyrfti ekki að taka af honum hinn fótinn.
Á Íslandi í dag yrðum við hins vegar að ljúga að sjúklingnum. Það eru engar góðar fréttir!