Rammíslenskt pöbbakvöld og saltur sær

rammslensktÁnægjulegri fríhelgi er lokið en skemmst er frá því að segja að hún var drykkja út í gegn. Á föstudaginn fögnuðu Íslendingar í Stavanger og nágrenni sumarsólstöðum með ruddalegri drykkjusamkomu á hinu góðkunna öldurhúsi Munken í miðbæ Stavanger. Ég kom þarna nánast beint af brúkrananámskeiði (n. traverskran) í Rogaland Kranskole og þurfti að hafa mig allan við að komast á skikkanlegum tíma. Mæting var ágæt og hvergi slegið af við notkun áfengis en þessi heimilislegi pöbb býður upp á tvo fyrir einn frá klukkan 19 til 23 alla daga nema laugardaga og er þekktastur fyrir að vera lokað reglulega af vínveitingaeftirlitinu vegna of margra og/eða ölvaðra gesta. Kvöldið leið í rammíslenskum glaum þar sem Íslendingar á svæðinu báru saman bækur sínar og ræddu líf sitt. Mjög gaman og þátttakendur eiga hrós skilið fyrir skýran og einbeittan drykkjuvilja. Takk kærlega. (MYND: Hluti hópsins sem setti svip á miðbæ Stavanger á föstudag./Yrsa B. Heiðarsdóttir)

Í gær, laugardag, tók ekki betra við. Að lokinni skylduheimsókn í ræktina og ríkið var haldið í siglingu með Johnny Svenssen, vinnufélaga Rósu, sem á þessa fínu skútu og skipshund og allar græjur með.

Þetta var reyndar rosalega gaman og nú er það alveg á beinu að næsta farartæki sem keypt verður á þessu heimili er bátur. Aldrei þessu vant gilda engar ósveigjanlegar reglur um notkun tómstundabáta hér á svæðinu, fólk fætt fyrir 1980 þarf ekki einu sinni að taka siglingaréttindi sé báturinn innan við 15 metrar að lengd og leyfilegt er að sigla um höfin blá með allt að 0,8 prómill áfengis í blóði sem ég hefði hreinlega aldrei trúað upp á regluveldið Noreg. sj

Við renndum út úr smábátahöfninni við Paradis um fjögurleytið og hófst drykkja án ástæðulausrar tafar. Þjónustan við bátaeigendur er vegleg hér á svæðinu og eru einar 150 þjónustuhafnir með bryggju, salerni og ruslagámum á svæðinu frá Stavanger til Haugesund. (MYND: Aðmírállinn dregur fleyið að bryggju. Stavanger í baksýn.)

Eftir rúmlega klukkutíma stím stýrði Svenssen fleyi sínu til hafnar í Teistholmen þar sem drykkjulætin skullu á okkur. Þar lágu fjórir bátar fyrir við bryggju og Magnar nokkur hélt þar uppi fjörinu með myndarlegan hóp með sér, glaum og gítarleik. Gestunum var fagnað vel en þetta bátalið þekkist greinilega allt innbyrðis. Við gerðum þarna um klukkustundarlangt stopp og nutum þess heiðurs að ræða við gamla og rótgróna Stavanger-búa sem mundu tímana tvenna í sögu svæðisins og höfðu frá ýmsu að segja. Þetta fólk var orðlaust yfir því hve góða norsku við hjónin töluðum en mér finnst það nú ekkert kraftaverk eftir þrjú ár hér í landinu og rúmlega það. Þó er það alveg afrek út af fyrir sig að læra Stavanger-norskuna sem ég hef rætt um hér áður, ég gef okkur það að minnsta kosti. sj ii (MYND: Partýgengið í Teistholmen gaf ekki millimetra eftir.)

Þetta var svo gaman að við vildum helst ekkert snúa til hafs aftur en kvöddum þó um síðir með tárum og trega og snerum knerrinum til hafs. Þegar þarna var komið sögu var nú sennilega enginn um borð undir 0,8 prómillum en við ákváðum að láta okkur bara njóta vafans, botnuðum dallinn inn í Paradis án teljandi vandkvæða og lentum þar upp úr klukkan níu. Svo var opnuð bokka af Hammer-vodka hérna heima í Sandnes til að slá botninn í þessa líflegu helgi. Hneit þar. sj iii

Ég skal nú játa að ég fór ekki á hlaupabrettið í City Gym í dag eins og prógrammið gerir ráð fyrir en það verður tekið stíft á því í fyrramálið eftir allan ólifnaðinn um helgina og svo tekur við síðasti dagur krananámskeiðsins, vinna á ný á þriðjudag. Maður er aðeins farinn að telja dagana í sumarfríið, það játast hér með. (MYND: Frumraun mín í siglingu 12 metra tómstundabáts eða hvað þetta er kallað. Ég lofa því ekki að ég hafi verið undir lögboðnum 0,8 prómillum er þarna var komið sögu.)

Athugasemdir

athugasemdir