RaksápupáskaR

legsteinnHvílíkt högg að koma aftur á vinnumarkaðinn eftir fimm daga sólbað og sull í víni og veislumat. Morgunninn var einn sjá djöfullegasti síðan land byggðist hér á svæðinu. Nú þarf ég að fara að raða inn sumarafleysingafólki á öðru hundraðinu, halda starfsmannafund í fyrramálið og svo fer restin af vikunni eins og hún leggur sig í starfsmannasamtölin sem ég hef kviðið mikið. Ég er á mörkum þess að nenna þessu. Aldrei hef ég skilið tilganginn með þessari vitleysu sem neydd er yfir vinnuveitendur af óðum sálfræðingum.

Ég held að ég hafi bara farið í eitt starfsmannasamtal sjálfur um ævina. Hin voru leyst þannig að maður fékk eyðublöðin í tölvupósti og var beðinn um að skilja þau eftir útfyllt á borði næsta yfirmanns. Jafnvel það var fánýtt. Skiptir það einhverju máli hvaða álit ég hef á því hvernig ég hef vaxið og dafnað á einhverjum vinnustað??? Ég er sáttur ef ég fæ laun og kaffi og hef nothæft klósett. Merkileg árátta að flækja alla hluti svona – og hér eru það ekki bara Norðmenn eins og gjarnan.

Við þökkum hugljúft tonn af heillaskeytum sem beið okkar hér á síðunni vegna yfirvofandi brúðkaups okkar. Vonandi verður jafngaman fyrir jarðarförina.

Fyrirsögn þessa pistils tengist ekki miklum rakstri hjá mér um páskana, þvert á móti er ég órakaður og farinn að líta út eins og róni eftir fríið. Orðið má hins vegar lesa í báðar áttir og er sennilega hið lengsta sinnar tegundar í íslensku. Finnar eiga sér líka gríðarlega langloku sem virkar í báðar áttir, saipu…eitthvað og þýðir sápusteinasali. Bjöggi, þið frúin getið kannski rifjað það upp fyrir mig.

Þegar ég var í Nordplus-skiptináminu í Helsinki skemmti einn af kennurunum okkar, Eddy Hawkins – örugglega eini Bandaríkjamaður heims sem talar reiprennandi finnsku OG sænsku, sér við að kenna bekknum ískyggilegar setningar á finnsku. Margt af þessu var mjög skondið, til dæmis Älä rääkäkä akkaa. En rääkäkään (Ekki stríða gömlu konunni. Ég er ekki að stríða henni.).

Athugasemdir

athugasemdir