“You do what you have to do, you know”

gunnar nelsoniiHelvíti er ég stoltur af að horfa á minn mann í blönduðum bardagalistum, Gunnar Nelson, rúlla upp sínum fyrsta bardaga í UFC í gær með því að taka DaMarques Johnson gjörsamlega ósmurt í nefið. Fyrir þá sem ekki hafa séð bardagann má sjá hann hér í boði MMA-CORE.com og ég vek sérstaka athygli á viðtalinu við Gunna eftir bardagann. “You do what you have to do, you know,” er ekki lakari tilvitnun en margar er liggja eftir nafna hans frá Hlíðarenda.

Þrátt fyrir að um heimsviðburð í bardagaíþróttum sé að ræða ranka íslenskir fjölmiðlar misvel við sér. Þar gildir enn sú gamla og sjálfdauða regla að eingöngu megi fjalla um íþróttir sem felast í því að hlaupa á eftir bolta. Vísir og Stöð 2 standa sig best og eiga ágæta umfjöllun, Mogginn og RÚV telja fimm línur af texta nægja til að koma þessum atburði til skila. Ég sé ekki að DV fjalli neitt um bardagann nema í kynningu á honum á fimmtudag, tveimur dögum fyrir hann.

Það er virkilega gaman að fylgjast með því grettistaki sem Gunnar Nelson og fleiri góðir menn hjá bardagaíþróttafélaginu Mjölni eru að lyfta á heimsmælikvarða. Fjöldi iðkenda hjá þeim stefnir hraðbyri í þúsund og blandaðar bardagalistir og brasilískt jiu jitsu njóta vaxandi vinsælda. Þetta er skemmtileg þróun.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að æfa karate með Gunnari hjá Karatefélaginu Þórshamri á síðasta áratug en segja má að Mjölnir hafi hafið göngu sína sem eins konar deild “grappling”-áhugamanna innan Þórshamars sumarið 2004. Fljótlega varð ljóst að salur félagsins í Brautarholti rúmaði ekki hvort tveggja með góðu móti og þar með fæddist Mjölnir sem sjálfstætt félag við Mýrargötu vestur í bæ. Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars, hefur staðið syni sínum þétt að baki sem umboðsmaður, fjölmiðlafulltrúi, faðir og ég veit ekki hvað allan feril Gunnars, hress og skemmtilegur skratti. Hann sést í myndbandinu sem ég vísa í hér að ofan.

Það er einlæg von mín að íslenskir fjölmiðlar fari að vakna upp við þá staðreynd að íþróttir geti verið annað og meira en rúllandi bolti. Það var nöturlegt þegar Björn Þorleifsson varð Norðurlandameistari í tae kwon do í janúar 2002 að varla nokkur maður á Íslandi vissi af því. Minnir einna helst á þá afleiðingu ritskoðunarstefnu Sovétríkjanna að almenningur þar frétti síðast allrar heimsbyggðarinnar af kjarnorkuslysinu í Chernobyl í apríl 1986. Það gerðist nefnilega aldrei neitt neikvætt í Sovétríkjunum að mati stjórnenda þeirra. Gerist þá aldrei neitt jákvætt í íslenskum íþróttum að mati íslenskra fjölmiðla?

Athugasemdir

athugasemdir