Jæja, þá erum við loksins búin að prófa pinnekjøtt, næstvinsælasta jólamat Noregs á eftir rifjasteik og það sem mætti í raun kalla hið norska hangikjöt. Leiðin er þó ansi löng yfir í það hangikjöt sem nánast hvert mannsbarn á Íslandi gleypir í sig á jóladag. Pinnekjøtt bragðast í raun nákvæmlega eins og hið rammíslenska saltkjöt en er þó sýnu auðugra af beinum og fitu, jafnvel svo að af þokkalega vænu stykki fást um tveir ætir munnbitar. (MYND: Pinnekjøtt hefur útlitið ekki með sér og mér persónulega finnst bragðið eftir því. Þó þori ég varla að játa það fyrir Norðmönnum hér á Vesturlandinu þar sem þessi réttur er þeim álíka helgur og belja Indverjum.)
Þetta voru því hálfgerð vonbrigði og verður að viðurkennast að frumraun mín í lutefisk-áti, sem átti sér stað einmitt fyrir sléttu ári, 5. desember í fyrra, og birt var myndband af hér á síðunni, var töluvert meiri upplifun þótt ég hafi dauðkviðið þeim atburði.
Bjargningafélagið, björgunarsveit Færeyja, er hlaðið lofi í þessari frétt RÚV frá því í gær en þar er fjallað um ofsaveðrið sem gekk yfir eyjarnar í síðustu viku með stórtjóni á munum. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að mér finnst hrein unun að hlusta á það frábæra tungumál sem færeyskan er, sérstaklega eftir að ég fór að skilja hana þokkalega en það virðist hafa komið algjörlega ókeypis samhliða norskunni. Fyrr á þessu ári komst ég að því að ég var farinn að skilja sænsku eins og að drekka vatn svo ekki er ein báran stök í landvinningum norrænna mála. Ég taldi fyrst að Svíarnir sem ég var að vinna með töluðu bara norsku með sterkum sænskum hreim þar til ég áttaði mig á því að þetta var bara sænska sem blessað fólkið var að tala. Sennilega hefur mér verið ámóta innanbrjósts við þessa uppgötvun og Sigurði Fáfnisbana þegar hann skyndilega skildi mál fugla eftir að hafa drukkið blóð drekans Fáfnis. Ég þurfti ekki að drekka neitt til að skilja Svía en viðurkenni þó að nokkur glös hjálpa.
Fyrsti snjór vetrarins er fallinn hér í Stavanger. Hann var mættur á svæðið þegar við vöknuðum í morgun. Eins og hefð er fyrir er hann að mestu horfinn aftur nú að kvöldi dags en langvinn snjóalög tíðkast lítið hér. Í fyrravetur minnir mig að einhver föl hafi verið á jörð þrisvar eða fjórum sinnum tímabilið desember til febrúar og svo var það búið. Árin hafa rænt mig snjógleði æsku minnar svo ég er bara nokkuð kátur með að búa á snjóléttu svæði. Nokkur ár af hnattrænni hlýnun til viðbótar og maður er alveg laus við þennan ófögnuð.
Þetta Huang Nubo-mál er í besta falli fyndið. Kanadíski herinn þykist þess fullviss að kauptilboð í Grímsstaði á Fjöllum sé útspekúlerað plott Rauða hersins til að tryggja sér töglin og hagldirnar þegar siglingaleiðin um norðurskautið opnast, annað kraftaverk hnattrænnar hlýnunar. Þessu er haldið fram í grein Globe and Mail frá í gær sem íslenskir fjölmiðlar hafa vitnað til. Ég gerði mig sekan um að halda að þessi náungi væri grautfúll svona almennt en hann er nokkuð góður í viðtali við Stöð 2 á föstudaginn og kemur vonbrigðum sínum frá sér með óbærilegum léttleika. Ekki ætla ég að missa svefn yfir því hvort Kínverjar eignist Grímsstaði á Fjöllum eður ei en hvað sem því líður er Nubo létt-brandari Gulu pressunnar óborganlegur.