Pikkfastur heima og gæti ekki staðið meira á sama

fasturVið erum veðurteppt heima og það skiptir nákvæmlega engu máli! Það hefur ótvíræða kosti í för með sér að þurfa ekki að komast nokkurn skapaðan hlut. Ég hefði heldur betur setið í súpunni hefði ég þurft að vera mættur í vinnu í annað byggðarlag klukkan 6 í morgun eins og var fram að áramótum. (MYND: Fákurinn fastur í innkeyrslunni. Hann fer ekki langt næstu daga ef marka má veðurspár.)

Ég játa að við þurftum að komast í Bónus og sú svaðilför heppnaðist, naumlega þó. Á bakaleiðinni tókst þó ekki betur til en svo að bifreiðin pikkfestist á leið inn í innkeyrsluna og fer nú hvorki út né inn. Það skiptir þó tiltölulega litlu máli núna. Fimm mínútna gangur er í World Class við Lágafellslaug og annað þurfum við ekki að þvælast. Mjög þægilegt allt saman.

Ljóst var að hér yrði ekki vorblíða fram á vor og nú fáum við okkar skerf af því sem íbúar meginlands Evrópu hafa mátt reyna undanfarnar vikur. Ég man ekki aðra eins veðurblíðu í janúarmánuði síðan 1989 þegar allt var farið að blómstra um miðjan mánuðinn og fraus svo í hel í mars. Nú er svipað upp á teningnum og spáð framhaldi af vetrarhörkunum heyrist mér á spámönnum veðurvísinda.

Hér hefur varla sést snjór að neinu ráði í 20 ár og maður er orðinn svo góðu vanur að það heyrir til undantekninga að maður grípi til nagladekkja enda er ég á sumardekkjum nú eins og sjá má. Síðast setti ég nagladekk undir í nóvember 2005 þegar ég hafði nýlega látið heilsprauta þáverandi bifreið mína og óttaðist mjög um hinn glænýja lakkhjúp. Það var í fyrsta sinn síðan 2001 sem þau dekk voru dregin út úr geymslunni auk þess sem þau voru minnst tíu ára gömul. Mig minnir að sjö naglar hafi verið í því þeirra sem flestum nöglum skartaði. Ég átti því fremur lítinn þátt í malbiksskemmdum þann veturinn. Síðan hef ég ekki ekið um á nagladekkjum og mun sennilega ekki gera í bráð þar sem við verðum bíllaus eftir að við flytjum út.

Einhverjar krónurnar sparast þar og ég hlakka mjög til að losna við bensínkaup sem eru að verða alveg fáránlegur baggi nú þegar lítrinn er kominn í á þriðja hundrað krónur. Að sama skapi vinn ég ötullega gegn hlýnun jarðar með því að hætta með öllu framleiðslu annarra gróðurhúsalofttegunda en þeirra sem líkami minn lætur frá sér fara eftir ýmsum leiðum.

Ég stefni sem sagt hraðbyri inn á mjög vistvænar brautir með vorinu. Væntanlega munu Þjóðverjar veita mér hina rómuðu umhverfisvottun sína, Der Grüne Punkt.

Athugasemdir

athugasemdir