Það er komið sumar hérna í Stavanger. Miðbærinn gerist hrein og klár drykkjuparadís frá því að sólin brýst fram í apríl og alveg þar til í október. Veitingahúsin opna útisvæðin sín sem eru þéttsetin flesta daga og vogurinn er stútfullur af skútum, bátum og skemmtiferðaskipum. Frá því á miðvikudaginn og þar til núna um helgina stendur hér yfir drykkjuhátíðin Stavanger Vinfest. Þetta er eins konar áfengis Food and Fun. (MYND: Þessi er reyndar tekin í fyrrasumar en segir engu að síður alla söguna – Stavanger er einfaldlega drykkjuhöfuðborg Noregs á sumrin.)
Fólk kaupir sig inn á hátíðina og labbar svo milli veitingahúsa og smakkar ótal tegundir af léttvíni. N.B. Sørensens, þar sem ég vinn í aukavinnunni, er aðili að hátíðinni og var helgin býsna lífleg. Ekki spillir 20 stiga hiti og glampandi sól en þannig hefur veðrið verið hér síðan fyrir páska. Ég er orðinn hálfleiður á að liggja í sólbaði, lá bara í rúminu í allan dag þangað til ég fór að vinna í kvöld.
Íslenska hljómsveitin Skálmöld er í sérstöku uppáhaldi hjá mér, ég ligg í þeim á YouTube. Gaman að heyra í þungarokksveit sem treystir sér til að semja kjarnyrta texta upp úr norrænni goðafræði. Einn textinn þeirra er ortur undir bragarhættinum sléttuböndum sem er ekki á allra færi. Ég mæli sérstaklega með laginu Kvaðning, frábær hljómsveit og megi þeir halda áfram starfi sínu. Hérna má sjá viðtal við sveitina í Kastljósi frá því í febrúar.
Það er komið fram yfir miðnætti, bæði hér og á Íslandi, en í dag…eða gær það er að segja… var 30. apríl. Það táknar að móðuramma mín, Sigríður Skúladóttir Briem, hefði orðið hundrað ára hefði hún lifað. Ég var í fóstri hjá henni fyrstu mánuði ævi minnar á meðan foreldrar mínir luku framhaldsnámi í Michigan í Bandaríkjunum. Amma kenndi mér að sjóða egg og drekka kaffi auk þess sem hún kenndi mér að lesa þegar ég var aðeins fjögurra ára gamall. Fáir hafa kennt mér meira, sennilega enginn. Amma var rammskyggn og þau afi miklir spíritistar og félagar í Sálarrannsóknarfélagi Íslands en ég efast þó um að þau nái að nettengjast hinum megin. Kærar afmæliskveðjur samt ef nettenging skyldi vera milli heima.