Páll bannar lóð

winkel-afmaeliEkki er mínum gamla æskuvini úr Garðabænum, Páli fangelsismálastjóra Winkel, fisjað saman. Nú er hann samkvæmt fréttum RÚV búinn að hirða lóðin af föngum landsins og vill að þeir fari bara að synda, skokka og hjóla. Páll segist ekki telja það eðlilegt að menn eigi 300 kíló í hnébeygju og 200 í bekk. Hann á nú samt yfir 120 í bekk ef ég man rétt. Niðurlagsorð inngangs fréttarinnar eru reyndar brosleg: ‘Fangar eru æfir yfir ákvörðun fangelsismálayfirvalda.’ Þeir æfa þó væntanlega minna blessaðir. Sigríður Hagalín fréttamaður les inngang fréttarinnar. Páll Winkel, Sigríður og ég vorum öll saman í bekk í MR fyrir 20 árum og ég starfaði með Birni Vigni, föður Sigríðar, á Morgunblaðinu, öndvegismanni. Heimurinn er örsmár. (MYND: Á góðri stundu í afmæli Páls Winkel sumarið 1994. F.v.: Hinrik Pálsson, ég, Sverrir stormsker, Páll Winkel og Jón Ari, a.k.a. Jari. Aðili í neðri röð óþekktur en ábendingar óskast.)

Kall sumarfrísins verður æ háværara. Sérstaklega núna þegar maður situr í sólbaði fram á kvöld alla daga eftir vinnu og líkamsrækt. Þá vill maður svona frekar losna við vinnuna og hafa daginn bara óskiptan í sólareldi. Það versta við vinnu er hvað hún slítur í sundur daginn. Hábölvað. Annars er skammt til helgar svo maður ætti ekki að væla. Einnig styttist í 17. maí, þjóðhátíðardag Norðmanna, en þá er býsna margt um dýrðir niðri í bæ. Norðmenn eru ólíkir okkur Íslendingum að þjóðhátíðarsiðum. Hérna er aðaldrykkjan ekki að kvöldi 16. maí/júní heldur er hún á þjóðhátíðardaginn sjálfan, þá logar allt í bænum. Við lentum á svaðalegu djammi þegar við ætluðum rétt að bregða okkur bæjarleið 17. maí í fyrra og rétt höfðum það í vinnuna daginn eftir. Sjá allt um málið í þessum pistli.

Athugasemdir

athugasemdir