Osama og ísbjörninn

osamaTvö söguleg dráp vitnuðust heimsbyggðinni í dag. Annað fórnarlambið var ísbjörn á Hornströndum en hitt sjálfur Osama bin Laden í Pakistan. Það tók tímann að finna karlinn, nánast tvo áratugi. Ísbjörninn hefur sennilega verið auðsýnilegri þarna fyrir vestan. (MYND: Indiastand.com.)

Ég efast um að nokkurt mannvíg hafi vakið svo mikil viðbrögð í heiminum síðan Oswald skaut John F. Kennedy í Dallas 22. nóvember 1963. Nú verður náttúrulega allt vitlaust í hryðjuverkaógn um allan heim. Það er varla að maður þori að fljúga frá Noregi til Íslands í júní. Merkilegt annars að það vantar einn staf upp á að þeir séu nafnar, Osama og Obama, auk þess sem Obama heitir Hussein að millinafni. Þetta eru mikil og góð tengsl.

Frétt Vísis, höfð eftir offshore.no, um að málnefnd Noregs mælist eindregið til þess að Statoil noti ekki íslenska nafnið Katla á olíubrunn á norska landgrunninu, er eins og besta aprílgabb…en sönn. ‘Etter vår mening er det problematisk og uheldig å velge et feltnavn på norsk sokkel med direkte tilknytning til Island.’ segir í bréfi málnefndarinnar til olíumálastjóra og er ekki rökstutt nánar.

Þetta er náttúrulega galið en kemur mér svo sem ekkert á óvart. Norðmenn eru upp til hópa afskaplega miklir trúmenn og hjátrúarfullt fólk þótt þeir séu jarðbundnari en tré. Að mati málnefndarmanna er vísun í ævintýragjaldþrotið Ísland í nafni svo mikilvægrar peningauppsprettu einfaldlega ekki forsvaranleg. Það gæti að þeirra mati ýtt undir einhvers konar óvísindalega ógæfu. Þetta er auðvitað bráðfyndið. (MYND: Þessi fer kannski að grufla í Kötlu, nýjasta klikkunin í norskum borpöllum, svonefnt Floatel. Pallurinn er smíðaður í Singapore fyrir norska vinnsluaðila. Um borð eru ekki færri en 440 svefnklefar með öllu því sem fjögurra stjörnu hótel gæti boðið upp á.)
floatel
Í dag, 2. maí, hófst gríðarlegt heilsuátak hér á heimilinu. Fram að sumarfríi verður ekki borðað ruslfæði nema mest einu sinni í viku, gerður matseðill fyrir vikuna til að draga úr hættu á hvatakaupum (e. impulse shopping), ekkert áfengi drukkið á virkum dögum nema veðrið verði mjög gott og tekið á lóðum og öðrum æfingum af aga og festu.

Ég mætti á fyrstu taekwondo-æfingu eftir páskafrí í kvöld og var að kafna. Rétt réð við að klæða mig sjálfur eftir sturtu. Eftir að ég varð miðaldra hefur ALLT afleiðingar þegar kemur að mat og drykk. Maður þarf greinilega að fara að skoða allar hliðar lífernisins. Veit einhver hvar Michael Jackson fékk þetta súrefnistjald sem hann átti að hafa sofið í áður en læknirinn hans drap hann? Mig vantar svoleiðis.

Athugasemdir

athugasemdir