Óli Tynes – In memoriam

li tynes‘Það er orðið mikið mannval þarna hinu megin,’ var haft eftir bónda nokkrum í erfidrykkju einhvers staðar einhvern tímann. Ég geri þau orð að mínum við andlát Óla Tynes, ofurblaðamanns og vinnufélaga míns hjá 365 miðlum árin 2008 og ’09. Óli starfaði sem blaðamaður í hálfa öld, geri aðrir betur, og byrjaði og endaði ferilinn á Vísi. Fyrst dagblaðinu Vísi fyrir 49 árum og svo vefmiðlinum Vísi löngu síðar. (MYND: Alltaf jafnreffilegur./365 miðlar)

Óli var einn spaugsamasti maður sem ég hef þekkt um ævina og hef ég þó kynnst mörgum kersknum einstaklingum á minni tíð. Ég man ekki eftir honum öðruvísi en í sólskinsskapi. Þannig mætti hann á vaktina á Vísi klukkan níu á morgnana þegar ég var að klára morgunvaktina sem hófst klukkan sex. Óli stormaði þá inn á fréttastofuna með fyrirgangi og bauð góðan dag á báða bóga. ‘Félagi Atli’ var vanaávarp hans til mín, einkum eftir að ég safnaði skegginu en þá taldi hann mikinn svip með mér og erkibolsévikanum Lenín. Sennilega var það rétt hjá karlinum.

Óli hafði marga fjöruna sopið í blaðamennskunni og var glettilega slunginn fyrirsagnasmiður. Ég giskaði með um það bil 95 prósenta skotnýtni á að hann væri höfundur fréttarinnar eftir að hafa séð fyrirsögnina eina á forsíðu Vísis. Snilld á borð við fréttina Hvítabjörninn Knútur er geðveikur var daglegt brauð í smiðju Óla.

Hann var í erlendum fréttum eins og ég sjálfur var að mestu eftir að ég fór yfir á morgunvaktina og var smekkur okkar á spaugsömum fréttum tiltölulega líkur. Ég man eftir því þegar ég þýddi frétt af nýsjálenskum bónda sem var dæmdur fyrir að reka belju í gegn með einhverri vinnuvél og aka með hræið um sveitina, hangandi á göfflunum. Þá rigndi yfir mig skammarpósti frá húsmæðrum í Vesturbænum og öðrum broddborgurum, sem spurðu mig hvaða erindi þessi viðbjóður ætti til almennings, á meðan Tynes hristist af hlátri í stól sínum við hliðina á mér. Sá hlátur var smitandi.

Jón Þór Ólason lögfræðingur, yngri sonur Óla, er kunningi minn síðan í lagadeildinni fyrir 15 árum. Óli hafði mjög gaman af því þegar ég sagði honum söguna af því að sonur hans ætti í raun heiðurinn af því að ég hefði tekið 140 kíló í bekkpressu á sínum tíma í nóvember 1997. Þá stóð hörð keppni á milli okkar Jóns Þórs í bekknum og áttu báðir 137,5. Við æfðum gjarnan þrír saman, Jón Þór, Pétur Leifsson, nú lektor við lagadeild HÍ, og ég. Á einhverri bekkæfingunni brá ég mér frá til að fá mér vatnssopa. Þegar ég kom til baka stóðu Pétur og Jón Þór við bekkinn og fögnuðu ákaft, þrjár bláar skífur hvoru megin á stönginni, 140 kíló. Fékk ég þá að heyra að Jón Þór hefði færst í jötunmóð og rifið upp 140 kílóin á meðan ég svalg vatnið.

Þessa ósvífni gat ég engan veginn þolað. Ég henti mér niður á bekkinn, grenjaði vel á stöngina og þeytti 140 upp í nokkuð góðri lyftu. Þá játuðu þeir félagar að þeir hefðu logið mig fullan og Jón Þór ekki lyft neinu að mér fjarstöddum. En talan var komin í safnið. Seinna tók Jón Þór 142,5 en ég fór aldrei yfir 140….ekki enn þá alla vega. Svona er lífið.

Óli var correspondent, eins og það heitir á góðri íslensku, fyrir CNN á Íslandi. Frammistaða hans í símaviðtali þar eftir Suðurlandsskjálftann 29. maí 2008 var unaður á að hlýða. ‘So tell me, Olli,’ sagði einhver fréttamaður á CNN, ‘…what was it like?’ og Óli svaraði að bragði með sterkum suðurríkjahreim: ‘Well Jim, let me tell you this…’ eða eitthvað álíka og öll fréttastofan stóð á öndinni yfir talandanum. Hann rak aldrei í vörðurnar.

Ég kveð Óla Tynes með söknuði, leiftrandi mann með ákaflega þægilega nærveru og yndislegan húmor. Ekki hafa það allir. Við ætluðum alltaf að fá okkur í glös saman en það brást eins og margt annað í lífinu. Kannski koma fleiri líf. Hver veit.

Athugasemdir

athugasemdir