Mikið er ótrúverðugt að horfa á frambjóðendur í Reykjavík í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins þar sem þeir rjúka upp til handa og fóta til að reyna að næla sér í atkvæði korteri fyrir kosningar. Svo heyrist ekki múkk í þessu liði í fjögur ár nema þegar rifrildið um einhver heimskuleg fjárhagsmálefni í ráðhúsinu verður annað slagið nógu hávært til að ná eyrum fjölmiðla. Ég ítreka stuðning atlisteinn.is við Besta flokkinn. Þar fer fólk sem er ekki að berjast fyrir neinu endurkjöri, bara kjöri. (MYND: Ég læt þessa flakka svona af því að ég er ekki með neitt nýtt. Þetta er elsta uppistandandi dómkirkja Noregs og er hérna niðri í miðbæ Stafangurs. Bygging hennar er almennt miðuð við árið 1125 og framkvæmdin talin hafa verið að undirlagi Magnúsar berfætts konungs en líklega er hún reist á grunni enn eldri kirkju. Upprunalegt útlit Stafangursdómkirkjunnar er almennt talið einstakt og ekki síður að hún hefur verið í notkun óslitið síðan upp úr 1300…afsakið langan myndatexta.)
Aldrei hefur andstaða við Evrópusambandið verið meiri hér í Noregi en um þessar mundir. Samkvæmt könnun Aftenposten, sem gerð var heyrum kunn í gær, leggjast nú 70 prósent Norðmanna gegn aðild sem er það mesta síðan mælingar hófust. Leiðarahöfundur blaðsins dregur enga fjöður yfir vanþóknun sína á þessari afstöðu landa sinna en Aftenposten er ESB-megin í lífinu. Ritarinn kennir Grikklandsdeilunni heiftúðugu um þetta fylgishrun og kvartar yfir því að alla málefnalega umræðu um ESB vanti í Noregi. Að mínu viti sýnir það best hve skynsamir Norðmenn eru enda hafa þeir siglt seglum þöndum gegnum kreppur og hrun. Meðalatvinnuleysi í landinu er þrjú prósent, þar af 2,7 hér í Rogaland en 3,9 í Ósló þar sem það er mest. Hvað sem verður í hugsanlegum aðildarviðræðum Íslands verður forvitnilegt að sjá hvernig þjóðaratkvæði fellur þar á efsta degi.
Við heimsóttum væntanlegan vinnustað okkar, Háskólasjúkrahúsið í Stavanger, í morgun og var tekið opnum örmum af tveimur deildarstjórum og aðstoðardeildarstjóra. Við komumst skammlaust gegnum hálftíma spjall en þar spillti ekki fyrir að annar deildarstjóranna var frá Ósló en þann framburð skiljum við mun betur en Stafangursmálið. Hið síðarnefnda er þó allt að koma og munar þar mjög um fréttir hinnar staðbundnu NRK Rogaland 24-sjónvarpsstöðvar eins og ég nefndi nýlega í pistli. Galdurinn er að hlusta af athygli og berjast svo við að koma þessu út úr sér sjálfur. Ég er farinn að taka upp sum séreinkennin héðan, svo sem ‘issje’ fyrir ikke. Ég á þó erfitt með að tileinka mér skrollið á r-inu og vil reyndar helst vera laus við það.
Samgöngutafir í Evrópu tengjast ekki bara Eyjafjallajökli. Hér var að berast SMS-skeyti frá föður mínum sem var að lenda í Keflavík eftir flug frá Kastrup. Þau rétt mörðu það í tæka tíð. Einhver framdi sjálfsmorð með því að henda sér fyrir lestina sem þau voru í. Eftir töluverðar hremmingar náðu þau í leigubíl sem ók með þau á ljóshraða á flugvöllinn og skildu sekúndur milli feigs og ófeigs. Maður þakkar fyrir að hafa komist hingað um daginn en minnstu munaði að við þyrftum að fljúga frá Akureyri.
Gámaflutningamaðurinn hringdi áðan og gladdi mig ósegjanlega með þeim tíðindum að hann yrði ekki hérna klukkan 7 í fyrramálið heldur um eittleytið. Ég spurði hann í nettum kvíða hvort hann ætti ekki örugglega við klukkan eitt eftir hádegi og svo reyndist. Við erum því laus við að rífa okkur upp klukkan 6 í fyrramálið og hefja þessa gríðarlegu líkamsrækt en getum sofið út og mætt úthvíld…með hrikalegar harðsperrur þó. Ég er að reyna að rétta úr höndunum eftir bicep-æfinguna í gær en reynist það ómögulegt. Þá hefur hreyfisvið brjóstvöðva dregist umtalsvert saman en hámark martraðarinnar var að setjast á hjólið í dag og skynja margraddað öskur taugafrumna í gluteus maximus.
Þá ber mér að segja frá því að ég hef soðið mín fyrstu egg í Noregi. Þau voru frá Europris og stórfín. Við tókum auðvitað bara þau ódýrustu en úrvalið af eggjum hérna er óhugnanlega fjölskrúðugt. Sennilega hefði ég getað beðið um ferkantað egg úti í búð og verið tekinn alvarlega.
Ég vona að ég nái að koma pistli á skjá annað kvöld. Ég gæti þurft að ráða mér ritara í það verkefni eftir gámaævintýrið mikla. Gulrótin hangir þó á spýtunni í órafjarlægð…tómur gámur = rauðvín!!!