Ógleymanleg upplifun í fjarðasiglingu

stllinnSigling inn Lysefjorden varð loks að veruleika í dag í þokkalegasta veðri. Náttúran á þessu svæði er yfirþyrmandi og fjallgarðarnir beggja vegna fjarðarins mótaðir af hnausþykkri íshellu sem hér lá yfir öllu á síðustu ísöld. Ekki er verra að þarna drýpur sagan af hverjum steini, til að mynda er siglt fram hjá Tingholmen þar sem Ólafur Tryggvason Noregskonungur hélt landsþing árið 998 og á fjallinu Hengjane nibbå bjó þýskur hermaður sem gerst hafði liðhlaupi í fyrri heimsstyrjöldinni og bruggaði landa af miklum móð þar til hann var loks handtekinn og framseldur til Þýskalands. (MYND: Preikestolen frá skipinu séð. Þysjað var inn nánast í botn á myndavélinni en stóllinn er í 600 metra hæð og virðist eins og eldspýtnastokkur úr þeirri fjarlægð.)

Tilkomumest var þó óneitanlega að sjá predikunarstólinn mikla, Preikestolen, sem hangir í 600 metra hæð yfir haffletinum og virkar agnarsmár af skipsfjöl. Toppflöturinn á honum er þó 25 x 25 metrar, sjá mynd sem fylgdi síðasta pistli. Mjó gjá er á milli klettsins og fjallsins sem hann gengur út úr og var lengi óttast að einn góðan veðurdag brotnaði stóllinn af og ylli gríðarlegri flóðbylgju þegar hann skylli í sjóinn. Jarðvísindamenn hafa þó dregið mjög úr þeim ótta og fullyrða að predikunarstóllinn sé pikkfastur. En Norðmenn eru mikið þjóðsagnafólk eins og við Íslendingar og sá fyrirvari er gerður að kvænist sjö bræður sjö systrum á sama tíma einhvers staðar við Lysefjorden sé voðinn vís en þá muni Preikestolen brotna af og steypast í hafið. Magnað að engir stórir systkinahópar hafi enn látið reyna á söguna.
geitur
Eitt skyldustopp í siglingunni, rétt áður en komið var að stólnum, var hjá geitahópi nokkrum sem kom vaðandi niður hlíðina um leið og sást til skipaferða. Þarna er hefð fyrir því að gera stuttan stans og gefa geitunum samlokur úr skipssjoppunni sem háseti hendir til þeirra af efra þilfarinu. Skepnurnar kunna greinilega vel að meta þetta og keppast við að koma samlokunum niður áður en mávahópur steypir sér af himnum ofan til að taka þátt í veislunni. (MYND: Þessar þrjár voru sólgnar í samlokur skipverja. Einhvern veginn hef ég alltaf ímyndað mér að slíkt væri ekki á matseðli geita.)
lysefjord-kort
‘Innst í firðinum sáum við ljósin lýsa,’ söng Bubbi en í fjarðarbotninum er loks að finna eitthvað sem er innan við 1000 ára gamalt en það er 110 megawatta raforkuverið Tjodan kraftverk sem reist var árið 1985 og er á kafi í einhverri fjallshlíð sem sprengd var upp. Þaðan berst raforka til Stafangurs og fleiri byggðarlaga í Rogalandi. Á veturna er engin önnur leið þangað en með skipum þar sem fjallvegirnir sem liggja til fjarðarbotnsins eru aðeins færir á sumrin. Loks ber að geta gríðarmikils mismunar á dýpt Lysefjorden en hann er grynnstur rétt um 13 metrar en dýpið nær 422 metrum þegar innar dregur. Næst á dagskrá er að ganga upp á Preikestolen, í það verður að öllum líkindum ráðist í júní eða júlí. (MYND: Þetta er kannski ekkert sérstaklega skýrt en siglt er frá Stafangri og í austur inn Høgsfjorden. Frá honum er svo sveigt til vinstri (er það ekki á bakborða í skipamáli?) inn Lysefjorden sjálfan sem er þessi langi og mjói.)
lyseii
Þrátt fyrir mikla geðshræringu eftir þessa stórbrotnu upplifun sem siglingin var höfðum við okkur í ræktina á eftir. Ég er með illvígar sperrur eftir að æfingar hófust á ný í síðustu viku en hafði mig þó í gegnum þetta, minnugur ummæla líbanska skáldsins Khalil Gibran í Spámanninum: ‘Þjáningin er fæðingarhríð skilningsins.’ (MYND: Nóg er af hrikalegum klettum í Lysefjorden sem gnæfa í mörg hundruð metra hæð yfir örsmáum áhorfendum á skipsfjöl.)

 

 

Athugasemdir

athugasemdir