Og björgin klofnuðu…

facebookiiÉg hef gerst aðili að alþjóðavæðingarupplýsingahakkavélinni Facebook. Þetta gerðist á sunnudaginn, 8. júlí. Lengi hafði ég spyrnt við fótum en brotnaði mánudagskvöldið 2. júlí þegar gömlu vinirnir mínir úr Garðabænum, svokallaðir Gamlir hundar sem margir gestir úr brúðkaupinu okkar muna eftir fyrir hart uppistand, lögðu fyrir mig þá snöru sem lengi mun uppi verða…gamlar myndir á lokaðri einkasíðu hundanna.

Sennilega er Hilmar Veigar Pétursson, CCP-stjóri og EVE-frömuður, primus motor í þessum hópi en áhrif allra hinna voru eins og áfengis, mikil. Ég ákvað þess vegna að brjóta risastóran odd af oflæti mínu (eiginlega mölbraut ég allt oflætið) og láta sjá mig þarna. Nógu margir hafa legið í mér nógu lengi. Ókey þá!

Þetta mun ekki hafa nein áhrif á sköpunargleði og virkni atlisteinn.is en ég veit fyrir víst að tugir lesenda þessarar síðu eru ekki á Facebook og gott hjá þeim. Kosturinn fyrir mig er að ég get sjálfur deilt pistlum mínum hér á Facebook og hætt að gauka því að Rósu að hún ‘ætti nú að deila þessu á Facebook’ hafi mér þótt vel takast með einhvern texta hér.

Þetta gengur þó ekki í hina áttina. Ég get ekki sett eitthvað, til dæmis myndband, á Facebook og vísað í það hér fyrir fólk sem er ekki á Facebook. Það er bannað í hinu stafræna vígi Marks Zuckerberg og það finnst mér dálítill ljóður á ráði hans og þessarar ofursímaskrár lýðnetsins. Þetta rak ég mig oft á sjálfur áður en ég gerðist auðsveipur þegns keisaradæmisins, ‘Skráðu þig til að sjá hvað vinum þínum finnst um…’. Mér þætti saklaust að óinnvígðir fengju sjálfkrafa gestaaðgang og gætu horft en ekki snert, það er skoðað án þess að geta skrifað, gefið einkunn eða skilið eftir sig einhver spor.

Í engu verður slökkt á tjáningarþorsta atlisteinn.is við skrefið yfir þennan þröskuld en þeir sem eru á Facebook ættu nú að geta gefið mér aðeins fleiri læk en áður. Vefsetur á borð við atlisteinn.is þurfa hins vegar ekki læk…við erum á.

Athugasemdir

athugasemdir