Öskudagurinn langi…

aska…er nýr hátíðardagur í Stavanger og nágrenni sem gengur út á að fagna því að sem lengst sé liðið frá deginum í gær en þá lömuðust flugsamgöngur frá flugvellinum á Sola. Ja, þær lömuðust nú reyndar ekki alveg en nóg til þess að farþegaflug gekk allt úr skaftinu og þyrluflug á olíuborpallana hérna úti á Norðursjónum lá alveg niðri. Það síðartalda er álitið stórslys hjá þjóð sem á meira undir olíu en sjálfur J.R. Ewing. (MYND: Miðbær Stavanger um hádegisbil í gær…nei grín.)

Persónulega varð ég ekki var við ösku hérna en svifryk var víst yfir heilsuverndarmörkum samkvæmt fréttum í gær. Það eru þó engin tíðindi í Stavanger þar sem þykkur reykjarmökkur hvílir yfir bænum á köldum vetrardögum þegar skíðlogar í kamínu á hverju heimili. Maður missir að minnsta kosti engan svefn yfir þessum vægu hamförum. Áhrifin eru þó lúmsk og víða. Á háskólasjúkrahúsinu hefur verið settur inn sérstakur töluliður í starfsmannakerfið til þess að skrá fjarvistir þeirra sem eru ‘askefast’ á Íslandi eða annars staðar og komast ekki til vinnu. Þetta er 6.500 manna vinnustaður og fjöldi fólks á förum milli landa oft í viku eða mánuði.

Góðlátlegir Íslands-/öskubrandarar gengu manna á milli með tölvupósti í dag en koðnuðu niður þegar ég sendi baneitraða pillu til baka: Klausu Stavanger Aftenblad frá því í gær (sjá síðasta pistil). Þegar stórblað Rogalands lýsir því yfir að eldfjallið sé í Ísrael duga engin vopn. Ekki lýgur Aftenbladet frekar en Mogginn.

Athugasemdir

athugasemdir