Öryggisæði Norðmanna

hengilsÉg lofaði að ræða um öfgar Norðmanna í öryggisgæslu í þessum pistli. Það er reyndar á mörkunum að ég nenni því eftir tvær af þremur helgum á þriðja og síðasta öryggisgæslunámskeiðinu. Þegar ég hugsa málið er það kannski bara eðlilegt að Norðmenn séu uppteknir af öryggisgæslu þar sem þeir eru gjörsamlega manískir í öllu sem kemur öryggismálum og slysavörnum við, ég hef áður skrifað hér um HMS (helse, miljø, sikkerhet) æði Norðmanna og þetta er sennilega bara angi af því. Á mínum vinnustað eru menn svo grófir að fyrirbærið hefur verið þróað upp í HMSK þar sem k-ið táknar kvalitet eða gæði.

Það segir að minnsta kosti meira en mörg orð að öryggisverðir almennt (að meðtöldum dyravörðum og öllum öðrum vörðum sem eiga að koma í veg fyrir að eitthvað slæmt gerist eða grípa til einhverra aðgerða ef það gerist samt) eru 258 á hverja 100.000 íbúa Noregs. Sambærileg tala í Svíþjóð er 149 en rólyndisfólkið í Danmörku fær sér bara einn Tuborg og er með 109 öryggisverði á 100.000 íbúa.

Þetta er hluti af fróðlegri tölfræði sem farið er yfir á námskeiði Securitas sem ég sit gjörsamlega meðvitundarlaus milli 9 og 17 á laugardögum og sunnudögum eftir dyravörslu til 04 um nóttina og svefn, ef svo má kalla, frá 05 – 08. Þökk sé Brasilíumönnum fyrir að búa til kaffi, sá vökvi hefur haldið lífi mínu í skorðum síðustu tvær vikur.

Annars er þetta svo sem ekkert leiðinlegt og Bjørn leiðbeinandi, öryggisráðgjafi til margra ára, gaukar að okkur alls konar leynilegum innherjaupplýsingum frá NOKAS-ráninu og öðrum þekktum norskum afbrotum en hópurinn er allur bundinn ævilangri þagnarskyldu og búinn að undirrita plögg um það með blóði sínu. Meðal annars spannst umræða um þýðingar en Bjørn veit einhvern veginn að Íslendingar eiga sér íðorðanefndir sem þýða öll hugtök úr öllum sviðum atvinnulífsins. Ljóst er að Norðmenn eiga sér ekki slíkar nefndir og fá mikið lánað úr ensku, setja í mesta lagi k í stað c og kalla það svo norsku.

Hópurinn fór þá að rekja úr mér garnirnar um þýðingar á ýmsum fyrirbærum og sátu menn gáttaðir þegar ég sagði þeim frá gámum og farsímum sem heita bara container (ekki einu sinni með k-i) og mobiltelefon á norsku. Þeir játuðu sig endanlega sigraða þegar ég birti þeim þann sannleik að forritunarmálið HTML héti í raun stiklutextaívafsmál á íslensku. 1-0 þar.

Daginn eftir var verið að ræða um mismunandi tegundir innbrota- og brunakerfa og hvað hentaði í hvers konar húsnæði. Kom þar reynsla mín frá þriggja og hálfs árs starfi hjá Securitas á Íslandi að haldgóðum notum sem kemur þessari sögu þó ekki við. Ég var eitthvað að spjalla um brunakerfi og skeytti því við í lokin að slík kerfi yrðu nú seint ofmetin hér miðað við hvað Norðmönnum þætti enn gaman að búa í timburhúsum. Ég missti aðeins of mikið úr háðskammtaranum í orðróminn en þá sló Bjørn leiftursnöggt til baka og ískraði í honum af kátínu: ‘Við höfum þó skóga til að byggja þau úr!’ og staðan þar með 1-1 í þessum vináttulandsleik sem lauk sem betur fer með því.

Námskeiðinu lýkur, eins og mörgum námskeiðum, með prófi að lokinni kennslu næsta sunnudag. Laugardaginn þar á eftir, 4. febrúar, mun ég svo sofa út, næstum í fyrsta sinn á árinu. Það mætti ætla að maður væri með nýfætt barn á heimilinu.

Dyravarslan hjá PSS hefur annars farið ágætlega af stað þótt núna í febrúar séu akkúrat níu ár síðan ég lét af störfum á Næsta bar við Ingólfsstræti. PSS er með 80 prósenta markaðshlutdeild í dyravarðabransanum í Stavanger svo maður er ekki bundinn við sama staðinn. Raunar er það svo að flestir staðir í Stavanger leigja inn dyraverði frá viðurkenndum öryggisgæslufyrirtækjum í stað þess að vera með eigið starfsfólk í dyrunum og reyndar verður það lögbundin skylda þeirra frá og með 1. apríl þegar ný lög um öryggisgæslufyrirtæki taka gildi. Fyrir vikið þurfa dyraverðir að hafa setið alls 75 klukkustundir af námskeiðum og hlotið vottun lögreglu til starfans. Ég sit núna lokanámskeiðið en tók hin tvö í fyrra og hitteðfyrra. Að þessu loknu hef ég réttindi til að sinna öllum tegundum öryggisvörslu í öllum fylkjum Noregs en til þess kemur nú væntanlega ekki.

Ég hef undanfarnar tvær helgar verið á næturklúbbnum Hall Toll í miðbænum, 1.500 manna stað sem einnig er matstaður fyrri hluta kvölds. Það er margt ólíkt við að starfa sem dyravörður í Noregi og á Íslandi en þar vann ég á alls átta stöðum tímabilið 1995 – 2003. Hér þurfa allir dyraverðir að ganga í hnífstunguheldum vestum vegna krafna frá tryggingafélögum öryggisfyrirtækjanna og sá andskoti er versta helvítis spennitreyja sem lögð hefur verið á vinnandi einstaklinga. Fyrir utan að líkjast uppblásnu náhveli er ég að drepast í öxlunum eftir að hafa gengið í þessari svörtu martröð í allt að sjö klukkustundir og ekki vinnandi vegur að hneppa venjulegum jakkafötum utan um þetta.
hall toll
Flestar reglur eru öðruvísi en á Íslandi…eða eins en bara farið eftir þeim. Hér er bannað með lögum að selja áberandi ölvuðum einstaklingi áfengi. Það er það líka samkvæmt áfengislögum á Íslandi en þar dytti fæstum veitingamönnum í hug að fara eftir því. Vegna þessa banns sjá eigendur norskra veitingastaða sér engan hag í að hleypa áberandi ölvuðu fólki inn á staðina svo þeir eru síaðir úr og sendir í 15 mínútna göngutúr eða beðnir að láta sig hverfa það sem eftir er kvölds sé ölvun veruleg. (MYND: Hall Toll, þarna er ég á næturnar um helgar þessa dagana. Nafnið kemur til af því að þetta er einmitt gamla tollhúsið í Stavanger, tekið í notkun árið 1904 og breytt í næturklúbb á 100 ára afmæli sínu 2004. Tollhúsið við Tryggvagötu í Reykjavík yrði svakalegur skemmtistaður!)

Norðmenn hlýða dyravörðum, það er annað sem er mjög erfitt að venjast eftir reynsluna á Íslandi. Fólk segir bara ókey og fer ef það fær ekki að koma inn eða er beðið að fara út (jæja, flestir). Eins eru gestir tilbúnir með skilríki í hönd þegar kemur að þeim í röðinni, yfirleitt kostaði það fortölur að fá að líta á skilríki hjá fólki uppi á Fróni og álitu margir einhvers konar móðgun væru liðnir meira en þrír dagar síðan viðkomandi varð tvítugur.

Þetta er sem sagt ágætt og best af öllu að ég ræð nákvæmlega hve mikið ég vinn. PSS annast gæslu á öllum kappleikjum Viking og velflestum tónleikum í Stavanger og Sandnes svo fjölbreytnin er fín og hægt að stilla álagið eftir því hve mikið er að gera hjá NorSea/ConocoPhillips. Ég stend allar helgar núna fram á vor en svo bremsa ég þetta eitthvað niður þegar ég fer að drekka brennivín á ný. Bakkusi kallinum þarf að sinna eins og öðrum.

Ekki er öll dellan eins í fjölmiðlum samanber fréttina Svona færðu Jennifer Aniston-handleggi. Hver vill það??? Frekar fengi ég mér nef Michael Jacksons heitins og gengi nakinn með það um miðbæ Stavanger.

Athugasemdir

athugasemdir