Örugg leið til að verða moldríkur í Noregi…

ocv…er að opna flutningaþjónustu í Stavanger. Við erum ekki enn þá flutt. Jú, reyndar erum við flutt en við sofum á gólfinu, hitum vatn út í Neskaffi í potti og göngum örna okkar í görðum nágrannanna. Þetta síðasta er lygi. Á laugardaginn, þegar ég hélt að ég myndi eyða deginum sveittur og brjálaður við að bera búslóðina mína inn og út úr húsum og bílum, hringdi síminn klukkan 11 að morgni. Í honum var einhver Mið-Austurlendingur hjá Sola Flytting sem gerði mér það ljóst á bjagaðri norsku sinni að flutningabifreið fyrirtækisins væri biluð og því miður yrði ekki hægt að verða við þeirri pöntun minni að fá bílinn klukkan 13:00 þennan dag. Hann hljómaði algjörlega eins og þetta væri daglegt brauð hjá þeim. (MYND: Á þessu sofum við núna og erum nánast örkumla á morgnana fyrir vikið.)

Í annað sinn á tveimur dögum fékk ég nett áfall. Fyrra skiptið var á föstudaginn þegar flutningafyrirtækið Besa tjáði mér af hógværð að þeir ættu engan bíl lausan á laugardaginn – í röddinni lá visst hljómfall sem gaf til kynna að ég væri fífl að láta mér detta það í hug. Nú, ég rýk æpandi fram úr rúminu sem ég ætlaði einmitt að liggja í hálftíma í viðbót, og kalla þegar fram netsíðuna 1881.no sem er ja.is Norðmanna. Þar verður fyrir mér fyrirtækið Nazartransport og ég hringi í skiptiborðsnúmer þess. Það skiptiborð reyndist vera dóttir Nazars sem hljóp með símann inn í rúm og vakti Nazar. Hann tjáði mér illskeyttur og svefnvana að hans bílum væri ráðstafað þennan dag en ég gæti svo sem hringt á mánudag. Gaf þó hálfpartinn í skyn að hann dæi ekkert úr sorg þótt ég hringdi ekki.
ocioci
Til að gera langa og ömurlega sögu stutta hringdi ég í átta flutningafyrirtæki sem annaðhvort svöruðu ekki eða vélræn rödd tjáði mér að ég væri í tómu rugli og það væri laugardagur. Þá vinna Norðmenn helst ekki og alls ekki á sunnudögum. Ísland ársins 1985 væri hátíð miðað við helgarafgreiðslu hér. Að lokum sætti ég mig við að við myndum ekki flytja á laugardaginn. Í staðinn fórum við í ríkið, þrifum íbúðina við Beverstien og fluttum okkar litla hafurtask þaðan með aðstoð Ella niður á Overlege Cappelensgate (sem heitir í höfuðið á norska skurðlækninum Axel Cappelen en hann framkvæmdi fyrstu hjartaskurðaðgerðina segja sögubækur). Sóttum reyndar nokkur teppi og eldhúsáhaldakassann í búslóðageymsluna. Nettenging var hins vegar klár strax á föstudaginn sem er hreint kraftaverk miðað við hraða norsks atvinnulífs. Þar af leiðandi birtist þessi pistill yður nú. (MYND: Svalir, loksins!)
ocii
Í morgun, mánudag, ætlaði ég svo heldur betur að hafa vaðið fyrir neðan mig og hringdi í Majortransport sem er eitt af stærri flutningafyrirtækjum landsins. Þó var ekki svarað í símann þar klukkan 11:48 á föstudagsmorguninn þegar ég reyndi það. Nú var svarað en viðmælandi minn sannfærði mig endanlega um að eitthvað mikið væri að í norskum flutningabransa. Majortransport á næst lausan bíl í september!!! Ég nennti ekki að spyrja manninn hvort þeir hefðu íhugað að bæta við bílum og mannskap. Slíkt væri mjög ónorskt, norskur vinnumarkaður hefur einkunnarorðin ‘bare slappe av’ og ‘stress deg ned’. Ekkert ósvipað hinu íslenska ‘þetta reddast’ fyrir utan að hér reddast þetta ekki…en öllum er alveg sama. Hvernig urðu Norðmenn ríkasta þjóð heims??? (MYND: Útsýnið af svölunum. Hvíta byggingin vinstra megin er eitt mól af vinnustað okkar, háskólasjúkrahúsinu. Ekki langt að fara.)
ociii
Ég braut þess vegna mjög stóran odd af oflæti mínu og hringdi í Nazar vin minn hjá Nazartransport. Hann dæsti þegar hann heyrði að óði Íslendingurinn var í símanum og sagði að minni bíllinn hans væri laus í dag, Volkswagen Transporter. Ég benti honum á að ég þyrfti að koma innihaldinu úr 40 feta gámi milli húsa og fékk hann til að játa að stóri bíllinn væri laus klukkan þrjú á morgun. Ég gaf honum allar upplýsingar og bölvaði í hljóði og beitti oddinum fast eins og Bólu-Hjálmar í ljóði Davíðs Stefánssonar. Tveimur tímum seinna hringdi hann og sagðist ekki komast fyrr en hálfsex þar sem hann væri að vinna. Ég spurði hann ekki hvort hann væri ekki að vinna við búslóðaflutninga heldur sagði bara kjempeflott að hætti hinna norsku og bjó mig undir að hafa samband við Guinness og segja þeim að ég væri um það bil að setja heimsmet í Stavanger…ná að panta mér flutningabíl! (MYND: Rennt í fyrsta glasið á Overlege Cappelensgate.)

Þetta kemur sem sagt í ljós en við erum komin á nýja staðinn og gengum í fyrsta sinn í vinnuna í morgun. Það tekur tvær og hálfa mínútu. Rölt niður í bæ er stundarfjórðungur og fimm mínútur á hjóli. Þetta er alveg draumurinn, það er ljóst. Kjallari, tvær hæðir og háaloft, garður og svalir. Húsið er skráð 88 fermetrar en er 120, ólögleg lofthæð í kjallaranum sér fyrir því. Ég get þó staðið þar uppréttur og þar er fín aðstaða til að brugga rauðvín, þvo þvott og frysta matvæli en stærðar frystikista fylgir húsinu.
ociv
Ég læt fimm myndir fylgja með en geri mun betri grein fyrir málinu þegar búslóðin er komin á sinn stað ásamt bókaskápum sem Elli mun setja hér upp næstu daga. Þá verður þetta bara déskoti huggulegur bústaður þótt leigan sé 260.000 íslenskar spesíur á mánuði. Það þætti nú dýrt fyrir 120 íslenska fermetra en gengið slær ryki í augu sem fyrr. (MYND: …og fyrsti sopinn auðvitað. Skál!)

Athugasemdir

athugasemdir