Örninn er sestur

sigfusHér rignir höfðingjum. Sigfús Örn Einarsson, fyrrum vinnufélagi frá 365 miðlum og sam-Benz-áhugamaður, barst hingað til Stavanger í kvöld með langferðabifreið frá Vanse þar sem hann gerði fyrsta stopp í Noregi. Urðu að sjálfsögðu miklir fagnaðarfundir og hófum við þegar drykkju í tilefni dagsins þrátt fyrir dagdrykkjubann mitt sem hófst 17. júlí en áskilið var að því mætti víkja til hliðar væri veður mjög gott og það var ágætt með köflum.

Sigfús er töluverður lífskúnstner og hyggur á starfsframa hér í Stavanger líkt og fleiri góðir Íslendingar. Gnótt starfa er í boði enda haustið mikill tími endurnýjunar á norskum vinnumarkaði. Sjálfur hyggst ég færa mig um set 1. september en ég lýk störfum á háskólasjúkrahúsinu miðvikudaginn 31. ágúst og hef störf innan olíu- og gasbransans. Aðdragandinn að þessu hefur verið nokkur en atvinnutilboðið barst 21. júní í kjölfar viðtals. Nánari grein verður gerð fyrir þessari beygju á ferlinum í fyllingu tímans.

Við Sigfús Örn biðjum kærlega að heilsa héðan frá Stavanger. Skál.

Athugasemdir

athugasemdir