Örlagasteikin – lítil áramótasaga

skinkestekÞað fór illa fyrir brjóstið á gömlum hefðahaus, eins og þeim er hér skrifar, þegar við fundum hvergi í gervöllum Stafangri hamborgarhrygg af öllum matvælum. Hafði hann þó verið til í Helgø matsenter vissum við en leitin bar okkur þó ekki þangað á efsta degi vegna almennra anna 30. desember. Þann dag var farin sérstök áramótaferð í áfengisútsölu og mikið magn áfengis keypt, þar á meðal flaska af Bombay-gini sem okkur þykir taka öðru gini fram.

Lokaferð var farin í verslunina Coop á sjálfan gamlársdag til að gera síðustu örvæntingartilraunina til að krækja í sómasamlegan hamborgarhrygg en allt kom fyrir ekki og var úrvalið þar af frambærilegu kjöti allt annað en stórkostlegt. Eftir miklar vangaveltur sættumst við á að kaupa svokallaða Juleskinke sem átti að reiða fram kalda með hefðbundnu meðlæti. Keyptum við svínið með hálfum huga enda á ferð vara sem við þekktum hvorki haus né sporð á. Hugsuðum sem svo að reyndist þetta viðbjóður mætti alltaf drekkja þeim sorgum í gininu.

Er heim var komið hófst almenn rauðvínsdrykkja og drög að eldamennsku sem rofin voru annað veifið með röfli við ýmsa aðila á svokölluðu Skype þar sem Rósa er skráð til leiks (og ég reyndar búinn að skrá mig núna en hef ekki enn átt jómfrúarsamtalið). Þar á meðal hafði Erika, frænka Rósu, samband frá Christchurch á Nýja-Sjálandi sem skemmtilegt er frá að segja þar sem klukkan var þá 01:43 að morgni 1. janúar 2012 hjá henni og áramót nýafstaðin en hér í Noregi var hún einmitt 13:43 á gamlársdag árið áður en tímamismunur er 12 klukkustundir! Rósa skammast sín að jafnaði fyrir mig þegar hún ræðir við vini og ættingja á Skype en þá nær vefmyndavélin mér gjarnan í bakgrunninum þar sem ég er að sniglast með brennivín eða annað áfengi, ófær um að skilja eðli nútímatækni og jafnvel íklæddur slopp einum (þó ekki merktum SÁÁ).

Þetta var nú útúrdúr. Þar sem við erum þarna að njóta gamlársdagsins og íhuga hvernig best sé að sækja að jólaskinkunni grunsamlegu rek ég upp skaðræðisöskur þegar því slær skyndilega niður í mig að við gleymdum að kaupa tónik til blöndunar við ginið en þetta tvennt saman er algjörlega ómissandi eins og sannir ginungar skilja.

Klukkan orðin ég veit ekki hvað og klárlega aðeins ein von í stöðunni, kaupmaðurinn á horninu en þar er á ferðinni ekta Silla og Valda-búð á horni nokkru 300 metra héðan. Verslun þessi hét áður Våland mat en var síðar keðjuð niður í Joker, sem er hingað og þangað um borgina. Gamla útlitið fékk þó að halda sér.

Þarna storma ég inn trylltur af skelfingu rétt fyrir lokun og stari sem andatrúarmaður á útfrymi á röð af 0,5 lítra tónikflöskum í hillu. Eftir að hafa gripið fjórar í sælli spennufallsvímu verður mér rölt fram hjá kjötskápnum, því annað og meira er kjötrými þessarar verslunar ekki. Liggur þá ekki þar Skinkestek frá Edelgris, mørt og saftig svinekjøtt, eins og umbúðirnar lýsa því. Alveg að detta á síðasta neysludag og á sértilboði, 29,50 fyrir eitt og hálft kíló (einn peru-cider, 0,5 l dós, kostar 31 krónu).

Ég var ekki lengi að kippa einu kvikindi með enda rann mér blóðið til skyldunnar. Framleiðandinn að baki Edelgris-merkinu er enginn annar en Gilde (nú Nortura), sláturhúsið góða sem var okkar annar vinnustaður í Noregi á haustvertíðinni góðu 2010 sem ég hef skrifað um og birt viðbjóðslegar myndir frá hér. Þessari skinku og öðrum afurðum vann ég meðal annars við að pakka í finstykk-deildinni sem ég hóf ferilinn í áður en ég átti sex gefandi vikur í sjálfu sláturhúsinu.

Ánægður rölti ég með skinku og tónik heim á leið og skellti þessu hróðugur á borðið. Átum við svo steikina um kvöldið með bestu lyst en fyrrverandi aðalleikarinn, juleskinkan, er enn inni í ísskáp og verður höfð ofan á brauð á næstunni.

Hver er boðskapur þessarar fallegu áramótasögu? Jú, Bakkus reddar málunum. Hefði mig ekki vantað tónik í ginið hefðum við látið okkur juleskinkuna að góðu verða og aldrei vitað hverju við misstum af. Þannig er nú það.

Athugasemdir

athugasemdir