Óðurinn til bleksins

TattooSpennandi dagur rann upp í gær og markaði upphafið að því mikla verkefni sem ég ákvað fyrir rúmu ári að teldist hæfileg afmælisgjöf frá mér til mín á fertugsafmælinu sem nú færist nær, hröðum skrefum. Auðvitað er um húðflúr að ræða enda huggulegast að gefa gjafir sem endast á stórafmælum. (MYNDIR: Rósa Lind Björnsdóttir)

Sá útvaldi til þessa verks er hinn pólski Emil Czekala hjá Studio Instinct í Stavanger en þar er á ferð virkilega athyglisverður listamaður, hvort tveggja á sviði flúrunar fólks og bifreiða eins og sjá má á heimasíðu fyrirtækis hans, Hot Tricks Airbrush Custom Painting. Emil féllst þegar á að taka verkið að sér er viðræður hófust í september í fyrra og í desember sendi ég honum öll gögn svo hann gæti hafist handa við þann hluta verksins sem verður hans hönnun en þar er reyndar eingöngu um bakgrunninn að ræða.TattooII

Klukkan 16:30 í gær fór svo fyrsta lota verksins fram í húsnæði Studio Instinct við Madlaveien og tók þrjár klukkustundir. Mæddi þar mjög á listamanninum þar sem úði og grúði af smáatriðum í þessum fyrsta hluta en hann stóð að öllu leyti undir væntingum og reyndar rúmlega.

Erfitt er að lýsa fyrir óblekuðum þeirri skemmtilegu fíkn sem í raun verður undirliggjandi afl í vitund fólks sem almennt ákveður að leggja hluta líkamsflatarmáls síns undir húðflúr. Þegar nokkuð er liðið frá síðasta bleki fer undirmeðvitundin ósjálfrátt að kasta fram tillögum að hugsanlegu næsta verki sem stigmagnast svo þar til blekbyttan, ef svo má að orði komast, fer meðvitað að íhuga hvort ekki megi hugsa upp eitthvert algjörlega einstakt listaverk sem þó verður að vera á einhvern hátt samofið lífstíl, menningu eða áhuga hýsilsins. Blekhylki sem drifið er áfram af hugsjón labbar ekki inn á tattústofu og spyr hvað það fái stóra mynd fyrir fimmþúsundkall.

Slíkir skurðgoðadýrkendur ganga undir heitinu sjálfblekungar og vekja ámóta hrylling hjá innvígðum bleksprautum og sú háttsemi fjölmiðla, að nefna alla sem starfa á fasteignasölum fasteignasala, gerir hjá Einari G. Harðarsyni fasteignasala, samanber nýlega grein hans í fjölmiðlum.TattooIII

Í samræmi við ofanskráð var það afskaplega nautnaleg tilfinning að heyra á ný rafrænt suð nálarinnar og finna þessa sérstöku sviðatilfinningu í húðinni sem er ekki beint sársaukafull en meira í ætt við eins konar sakramenti eða ritúal okkar blekbera þessa heims. Í kjölfarið fylgdi svo hefðbundin skolun (klárlega ígildi skírnarinnar) og smurning með bakteríuhamlandi smyrsli (undirbúningsvinna múmíu hjá Forn-Egyptum) svo allt ferlið ber í raun mjög sterka trúarlega skírskotun ólíkra menningarheima…nema þegar kemur að því að reyna sitt besta til að sofa ekki á nýju húðflúri, ég hef bara aldrei getað tengt það við neitt nema leiðindi.

Næsti áfangi verksins verður unninn á sjálfan bjórdaginn, 1. mars, og stefnan svo sett á að ljúka því að fullu….ja, fyrir fertugt.

Athugasemdir

athugasemdir