Obama sást ósjaldan með slíkan grip á lofti í kosningabaráttunni og er nú uggandi yfir því að öryggisdeild Hvíta hússins bannfæri símann. Lífverðirnir svartklæddu eru ekkert ánægðir með síma sem sendir tölvupóst, of einfalt þykir að brjóta sér leið inn í slík fjarskipti og njósna. George Bush sendi aldrei tölvupóst úr Hvíta húsinu og Bill Clinton aðeins tvo. Þá er GPS-staðsetningartæki innbyggt í Blackberry-símann sem hægt er að nota til að staðsetja forsetann með mikilli nákvæmni. Slíkt þykir heldur ekkert vit.
Nú, hvað þá? Jú, Þjóðaröryggisstofnunin hefur látið útbúa 3.500 dollara síma fyrir Obama og kallar gripinn Barack-Berry sem að sjálfsögðu er logandi háð. Sá er hannaður af General Dynamics sem á sínum tíma smíðaði F-16-orrustuþotur og á að heita algjörlega njósnaheldur. Og það er bannað að senda SMS í Hvíta húsinu svo það sé á hreinu.