Ó, hve hrátt er það salat?

n1Það er N1 í Mosfellsbæ sem hlotnast sá heiður að vera páskaklósettið á atlisteinn.is. Að vísu fær N1 plús fyrir að hafa opið um páskana en það er skammgóður vermir ef vörurnar eru komnar fram yfir síðasta neysludag. Þannig háttar til um hrásalatið sem N1 í Mosó stillti fram í hillum sínum í dag.

Að vanda er atlisteinn.is seinþreyttur til vandræða og í dag átti að renna eftir einhverju einföldu og ófrumlegu á grillið. Pylsur frá SS urðu fyrir valinu, enda velja Íslendingar þær víst og atlisteinn.is er alfarið í eigu Íslendinga. Þegar tekið var að svipast um eftir meðlæti kom í ljós að síðasti neysludagur hrásalatsins sem N1 bauð upp á var 9. apríl en honum lauk á miðnætti áður en þessi færsla var rituð, á föstudaginn langa, 10. apríl.

Ekki er útilokað að N1 hafi boðið upp á þetta forna hrásalat til að minnast þjáningar frelsarans, um það skal ósagt látið. Starfsfólkið fékk eitt lokatækifæri til að forðast að hljóta titilinn klósett vikunnar en það var að selja svekktum neytendunum hluta af kartöflusalatbirgðum pylsusölu sinnar í skaðabætur. Þessu var hafnað með einu penu nei-i og titillinn þar með í höfn. Til hamingju N1, þið eruð páskaklósett atlisteinn.is.

 

 

 

Athugasemdir

athugasemdir