Nýtt blek og nýjar jólaáætlanir

tattooNú á haustdögum 2011 hefur mitt fimmta húðflúr litið dagsins ljós og það fyrsta sem ég bæti í safnið í rúman áratug eða síðan í desember árið 2000. Það sem kannski er þó merkilegra er að þetta er í fyrsta sinn sem ég svík lit og leyfi öðrum manni en Jóni Páli Halldórssyni (JP Tattoo í gamla daga, Íslenska húðflúrstofan í dag) að reka í mig nál. Listamaðurinn að þessu sinni er Sjur Førsund hjá Studio Instinct við Madlaveien hérna niðri í miðbæ.

Forsaga málsins er eiginlega stórmerkileg og spannar tvo mánuði. Ég kynntist Sjur í maí en á stofunni hjá honum er einn íslenskur listamaður, Vincent Gísli Pálsson, ágætur félagi minn úr undirheimum Bakkusar hér í Stavanger. Í kjölfar eftirminnilegrar afmælisveislu hjá Viktori Heiðarssyni 16. september í haust endaði haugur af fólki í eftirteiti hjá okkur Rósu þar sem brennivínið streymdi eins og hlaup í Skaftá. Var Sjur þar á meðal. Vopnaður einum bláum og einum svörtum Bic-penna teiknaði hann myndina á hægri framhandlegginn á mér, akkúrat þar sem hún situr nú. Hann var mökkölvaður, þessir listamenn eru það náttúrulega alltaf meira og minna, en það virtist ekki koma niður á sköpunargáfu hans.
tattooii
Sjur bað mig svo að velta því fyrir mér hvort ég vildi að hann skellti þessu á mig en að öðrum kosti vildi hann halda ljósmyndum af verkinu, sem við höfðum tekið, og eiga það í safninu til að geta svo flúrað á einhvern annan viðskiptavin en verkið nýtur að sjálfsögðu verndar hugverka- og auðkennaréttar svo sem önnur verk listamanna. (MYND: Stemmningin á Studio Instinct var auðvitað hin besta meðan á vinnunni stóð. Við Sjur bregðum hornunum upp.)

Ég tók svo næsta dag í að skoða þetta allt saman og hugsa málið og tók fljótlega ákvörðun um að henda þessu bara á mig, fannst þetta líta bara helvíti vel út. Sjur bauð mér þá heim til sín strax þetta kvöld, 17. september, og gerði útlínurnar þar. Ég verð að játa að það var mikil tilfinning að heyra suð húðflúrnálarinnar á ný og finna þessa sérstöku óþægindatilfinningu í húðinni. Ég hef eiginlega saknað þess.
tattooiii
Næst heimsótti ég Sjur á stofuna föstudaginn 7. október og hann tók tæplega hálfa skygginguna. Punkturinn yfir i-ið var svo settur núna á fimmtudaginn, 17. nóvember, akkúrat tveimur mánuðum eftir að við byrjuðum. Það tók um fimm tíma og sparaði Sjur listfengi sitt hvergi. Útkoman var framar mínum björtustu vonum enda er svarthvítt húðflúr ein af sérgreinum Sjur. Hann sérhæfir sig einnig í flúrun bókstafa ef ég man rétt. (MYND: Heildarútkoman loksins klár. Svipmikið verk. Nú fæ ég mér vespu og sæki um í Hells Angels, ég er kominn með útlitið.)

Mér finnst sérstaklega gaman að rifja aftur upp alla umgengnina við nýtt húðflúr. Bera vel á af bakteríudrepandi smyrsli, passa að láta ekki sturtuvatn falla lóðrétt á flúrið, ekki sofa á því, klæða sig þannig að flúrið nái að anda, alls ekki kroppa þegar það byrjar að flagna og gæta þess að sól skíni ekki á það fyrstu vikurnar. Þetta er full vinna nánast en frábært að ganga í gegnum þetta allt saman aftur. Húðflúr skapar vissa fíkn og nú langar mig helst beint undir nálina aftur. Einhver bið verður þó á því en hugmyndir um vinstri framhandlegginn eru þó þegar farnar að taka á sig mynd, ég get ekki neitað því. Meira um það síðar.
tattooiv
Nú kemur að þeim lið í fyrirsögn þessa pistils sem fjallar um nýjar jólaáætlanir. Við komumst ekki til Íslands um jólin, fengum þær fréttir á föstudaginn. Ástæðan er sú að Rósa fær ekki frí í nýju vinnunni, það er einfaldlega ekki hægt miðað við verkefnastöðuna. Við munum því eiga okkar fyrstu jól í Noregi eftir rúman mánuð og þurfum að tileinka okkur þekkingu í að elda kalkún með öllu meðlæti og búa til fyllinguna sem hefur verið gerð eftir sömu uppskrift í minni fjölskyldu síðan ég fæddist og lengur. Ég treysti á pabba í þessum efnum en hann er með doktorsgráðu í fyllingargerð og eldun kalkúns. Hangikjötið verður einfaldara hins vegar og við eigum meira að segja rúllu í frystinum sem við keyptum á Íslandi í síðustu jólaheimsókn. (MYND: Ein í návígi. Hauskúpan neðst kemur býsna vel út finnst mér.)
jp tattoo
Við ætlum að reyna að taka áramótin á Íslandi í staðinn, 29. desember til 1. janúar. Þetta kemur allt í ljós núna í vikunni og er háð því að ég geti fært til fríið sem ég var búinn að fá og við getum breytt flugmiðunum sem við keyptum hjá SAS í ágúst. Meira um þetta allt saman í næsta pistli. (MYND: Ein gömul og góð sem ég birti hér með aðstoð nútímatækni myndskannans. Jón Páll Halldórsson skellir á mig síðasta flúri laugardaginn 9. desember 2000 í JP Tattoo sem þá var til húsa að Laugavegi 32, í húsinu sem Halldór Laxness fæddist í 23. apríl 1902. Ég mætti klukkan 13:30 og jóla- og áramótaflúrið 2000, eins og ég kallaði það, tók um tvo tíma fyrir utan grúsk á teikniborðinu. Þetta var á síðustu öld svo það var kannski alveg kominn tími á nýtt blek.)

Athugasemdir

athugasemdir