Nýr Don Corleone – Brando snýr sér við í gröfinni!

tannrtÉg er kominn með metnaðarfulla tannrótarbólgu frá og með í gær (ja, fyrstu einkenni komu reyndar fram eftir vinnu á laugardag). Þetta er meira helvítið, gefur gamla brjósklosinu mínu ekki millimetra eftir í einkar myndrænum þjáningum. Þetta var ekki komið á stig fullkominna vítiselda í gær. Þá náði ég nokkurn veginn að halda mér bærilegum með paracetamóli, íbúfeni og einni og hálfri flösku af Hammer-vodka. (MYND: Universal Pictures voru að hringja og bjóða mér hlutverk Don Corleone í endurgerð Godfather-myndanna. Marlon Brando á ekkert í mig núna! …make him an offer he can’t refuse!)

Í morgun var þetta hins vegar komið á töluvert verra stig svo ég fór í mína fyrstu heimsókn til norsks tannlæknis, hennar Harriet Haug sem er með stofu uppi á Tananger, nánast við hliðina á vinnunni. Hún byrjaði á að taka röntgenmynd og sprauta mig svo fullan af deyfingu sem var eins frelsandi og ískaldur gin og tónik. Því næst skar hún í tannholdið neðan við bólguna og hleypti þar út ýmsum vessum sem ég sá sem betur fór ekki. Að lokum skrifaði hún upp á pensilín handa mér og sagði mér að koma aftur eftir sumarfríið (hennar) í ágúst.

Ég gekk út léttur í spori og byrjaði í apótekinu. Fyrsta sjokkið kom svo þegar ég áttaði mig á því hve skammvirkandi norskar tannlæknadeyfingar eru: Nákvæmlega hálftími, þá er deyfingin horfin og ekki einu sinni gamli íslenski deyfingarnáladofinn eftir. Hún bara fer. Næsta sjokk kom í kjölfar þess að ég uppgötvaði að eftir heilan vinnudag í helvíti virtist þetta ekki vera að skána neitt og bólgan heldur að aukast en hitt. Nú þarf ég helst að taka þrjár paracetamól til að geta tuggið sem er náttúrulega út í hött. Við spyrjum að leikslokum í þessu máli en ef ég þarf að gifta mig með þetta nýja útlit verð ég með hauspoka í kirkjunni (eða fæ lánaða kistu til að liggja í við altarið).karma

Laugardaginn 9. júní lauk ég störfum sem dyravörður hjá PSS. Ég verð að játa að mér leiddist það augnablik ekkert þegar ég reif af mér hnífstunguvestið í síðasta sinn og grýtti því út í horn. Fjármögnun brúðkaupsins er lokið og þar með var aukavinnan kvödd. Þetta var reyndar athyglisvert lokakvöld. Viðbúnaðarstigið í dyravörslu Stavanger var sett á DEFCON 1 og við bárum handjárn sem við gerum almennt ekki en höfum þó leyfi til. Ástæðan var (nú nýafstaðið) verkfall ýmissa varða, öryggisvarða, símavarða og fleiri, en það olli því að lögreglan svaraði ekki í símann alla þessa helgi. Hvers vegna ekki? Jú, þar sitja einhverjir löggæslusímaverðir við símann, þeir voru í verkfalli og þá mátti enginn svara (né hringja, svo í fyrsta sinn frá uppafi voru engar pizzur pantaðar á lögreglustöðina heila helgi). Við bjuggum okkur því undir mikla skálmöld en svo var þetta hið þægilegasta kvöld, fínt veður og stíf drykkja í bænum. (MYND: Á næturklúbbnum Karma 3. mars./Sandra Vidrequin Youssef)lifrarpylsa

Við búum okkur nú undir Íslandsför á laugardaginn og tveggja vikna dvöl í gamla landinu. Fyrsta stopp á eftir Leifsstöð verður að sjálfsögðu Argentína steikhús eins og hefð er fyrir. Daginn eftir leggst ég svo í víking á KFC eftir skelfileg fráhvörf. Egils appelsínið verður auðvitað innan seilingar og fjöldi annarra séríslenskra rétta. Sigurbjörn linaði lifrarpylsufráhvarfið aðeins um daginn með því að gauka einni að mér eftir sína Íslandsheimsókn svo maður er aldeilis kominn með blod på tannen eins og þeir segja…

Athugasemdir

athugasemdir