Misskilningur getur verið það allra dásamlegasta í lífinu. Einn slíkur kom upp í síðustu viku og teygði sig yfir í þessa með þeim afleiðingum að bjarga alveg sótsvörtum mánudeginum fyrir mig. Einhver kverúlant sagði að lítið bros gæti dimmu í dagsljós breytt og þetta reyndist vera rétt eftir allt saman. Ég var reyndar við það að missa þvag af hlátri í morgun.
Þetta hófst allt með tiltölulega ómerkilegum pistli um dr. Dauða, þýska stríðsglæpamanninn Aribert Heim, sem einhverjir telja sig nú hafa sýnt fram á að sé löngu dauður. Ekkert stórmál frá mínum bæjardyrum séð. Ég hendi pistlinum inn á Vísi við vaktlok eins og siður þykir og skreyti með mynd af þeim gamla.
Daginn eftir bíður mín tölvupóstur frá Íslendingi búsettum í Danmörku með þessari góðu ábendingu:
‘Atli, þú ert með ranga mynd við grein þína um meintan dauða Ariberts Heims. Myndin er af Alois Brünner, sem Sýrlendingar vernduðu. Sonur Heims er einn til frásagnar um þetta andlát. Hann mun víst ekki teljast sérstaklega trúverðug heimild. Er Aribert ekki bar á Íslandi?
Kveðja,
[nafn]’
Ég græt alltaf af feginleik þegar hlust- og lesendur senda mér athugasemdir og þetta tilfelli var ekki undanþegið. Eftirfarandi fór frá mér til baka:
‘Djöfullinn hafi það, þessi mynd var þrælmerkt kallinum. Ég verð að gera eitthvað í þessu. Kærar þakkir. Ég hef ekki heyrt af barnum Aribert, maður drekkur bara brennivín heima í þessari helvítis kreppu. Hef þó heyrt vitlausari nöfn á bari:)
Kveðjur og þakkir,
Atli’
Ég fann svo rétta mynd af hinum nafntogaða Heim, setti við fréttina og var sæll. Í morgun kom svo stutt ábending frá upphaflegum ritara þar sem hann benti á að í lokamálsgrein erindis hans hefði fallið niður a í bara og átt að hljóma svo: ‘Er Aribert ekki bara á Íslandi?’ Jók hann þessu svo við:
‘Ætlunin var að spyrja hvort hann væri bara ekki á Íslandi. a-ið féll út. Þú getur kannski gefið einhverjum atvinnulausum nasista gullna atvinnuhugmynd með bar sem heitir Aribert Heim???’
Þetta fannst mér alveg óborganlegt. Ég kokgleypti það alveg umhugsunarlaust eitthvað um klukkan sex á föstudagsmorguninn, og þá bara á fyrsta kaffibolla, að maðurinn væri í alvöru að spyrja mig hvort hér á landi fyndist bar með heitinu Aribert Heim. Það er ekki eins og mér hafi komið til hugar að spyrja hann til baka hvort hann hefði í alvöru heyrt að hér væri öldurhús með þessu fáránlega nafni. Nei nei, mér fannst þetta eins eðlilegt og mögulegt var. Yfir þessu skemmti ég mér alveg konunglega í morgun. Það getur svo verið að einhverjum öðrum finnist þetta ömurlegur húmor. Ekki missi ég mikinn svefn af þeim sökum.