Vegna fjölda áskorana hefur ritstjórn atlisteinn.is ákveðið að pistlar vefsetursins verði eftirleiðis dagsettir. Óþekktur kvenkyns lesandi sendi eftirfarandi línur frá erlendu ríki og ritstjórnin getur ekki fundið það í hjarta sínu að daufheyrast við svo göfuglegri bón:
Endilega haltu áfram að skrifa, það er ástæða fyrir fjölda heimsókna á síðuna þína … Bara eitt; geturðu ekki sett dagsetningar á pistlana þína?
Ég spurði minn helsta tæknigúrú, Ríkharð Brynjólfsson hjá Miðneti, að þessu og kvað hann aðgerðina einfalda. Eini gallinn að viti ritstjórnar er að nöfn mánaða eru rituð með stórum staf í nýja dagsetningakerfinu og punkt vantar aftan við tölu mánaðardags svo að túlka megi hana yfir í raðtölu. Hvort tveggja er skýlaust brot á reglugerð um íslenska stafsetningu frá 1974. Vonandi tekst í fyllingu tímans að ráða bug á þeim andstyggilega tæknivanda.