Það eru heldur betur sveittir námskeiðadagar í gangi nú í öndverðan nóvembermánuð og ég sendur út og suður. Í dag sat ég fyrsta daginn af þremur á námskeiðinu OLF-116 Pakking, sikring og transport av last og á fimmtudaginn í næstu viku mun ég sitja einn heilan dag á námskeiði hjá IB Stavanger um lög og reglur í tengslum við lyftibúnað. Guð veri mér náðugur.
Fyrrnefnda námskeiðið, í daglegu tali kallað pakkekurs, er kennt hjá Rogaland Kranskole sem er lengst uppi í sveit, alveg í fjarendanum á Ålgård sem er 10 kílómetra sunnan við Sandnes og tilheyrir sveitarfélaginu Gjesdal. Þetta er mesta lúxusferðalag fyrir fólk sem er vant löngum bílaröðum kringum Stavanger. Ég kem mér út úr miðbæ Sandnes áður en allt lokast þar í umferð stundvíslega klukkan 07 (háð því að ég sé kominn á skikkanlegum tíma út úr City Gym og beint inn í bíl).
Í stað þess að halda áfram út í Sola með tilheyrandi morgunkös beygi ég suður E39, frá Stavanger, og er þá skyndilega einn á veginum með hroðalega þvögu á móti mér á leið til vinnustaða í Stavanger, Sola og Sandnes. Ferlið endurtekur sig svo á leiðinni til baka síðdegis. Þá eru allir íbúar Ålgård, Bryne, Figgjo og svo framvegis á leið heim á meðan ég sigli lygnan sjó í átt að Sandnes. Liggur við að maður reyni að fá sér vinnu á Shell-stöðinni í Ålgård, þá væri þetta alltaf svona.
Pökkunarnámskeiðið fjallar um hvernig koma skuli farmi fyrir á forsvaranlegan hátt í öllum þeim mismunandi flutningaeiningum sem notaðar eru til að koma þessu dóti út á olíuborpall og til baka aftur. Um það hefur verið sett slíkt bákn af reglum a la Noregur að Dauðahafshandritin eru eins og hver annar auglýsingabæklingur í samanburði. Þá eru leiðbeinendur Rogaland Kranskole greinilega ekki að bjóða upp á neitt huggulegt kaffispjall, námskeiðið er sex bóklegir tímar, 13 verklegir og svo fimm tíma próf á föstudaginn, bóklegt og verklegt! (MYND: Brot af ótal tegundum offshore-gáma um borð í Skandi Nova eitthvert kvöld í síðustu viku.)
Fræðilegi hlutinn var kláraður með glæsibrag í dag og rokið út í þann verklega. Allan daginn á morgun verðum við úti á æfingasvæði skólans að hlaða og pakka í gáma, gera öryggisúttektir á mismunandi tegundum þeirra og fást við ýmsar tegundir festingabúnaðar sem þessu fylgja. Eftir bóklegt próf á föstudag hefst verklegt próf þar sem nemendur vinna saman í tveggja manna hópum. Próftaki fellur þegar í stað gleymi hann að líta aftur fyrir sig til beggja hliða áður en bakkað er á lyftara út úr gámi. Sögur herma að ýmsir hafi farið flatt á þessu og þurft að mæta í upptökupróf hálfum mánuði seinna.
Ég er því eiginlega á leið í fyrstu umferð í próflestri þegar þessi pistill er svifinn út í rafrænar óravíddir lýðnetsins. Þessum námskeiðum fylgir alltaf nettur prófskrekkur, ég get ekki hrist það af mér. Sennilega ætti ég að líta á það sem kærkomna upphitun fyrir námið á næsta ári en geri það einhvern veginn ekki.
Mér líst sem sagt ekkert á næstu tvo daga en það er huggun að stórfínn matur fylgir námskeiðinu hjá Rogaland Jægerklubb sem er við hliðina á. Nær kannski ekki upp í mötuneytið hjá ConocoPhillips en ætur matur á námskeiðum er alltaf stór plús…að ekki sé minnst á drykkjarhæft kaffi.