Norskt kreatín – eitt sinn verður allt fyrst

kreatnpfÉg hef hafið neyslu míns fyrsta norska kreatíns sem framleitt er af Proteinfabrikken, norskum framleiðanda fæðubótarefna. Fyrsti kúrinn á þessu nýja efni hófst í gær og hefur það þegar staðist niðurgangsprófið sem ég hef margoft fjallað um í skrifum um kreatín og lýsir sér í því, að sé kreatínið ekki þannig af beljunni komið að ég þurfi að vera innan 10 metra radíuss frá postulíninu til að geta notað það áfallalaust, teljist það hafa staðist prófið. Sem dæmi um kreatín sem stenst alls ekki þetta próf er Phosphagain Creatine frá EAS og hlífi ég siðuðu fólki við lýsingunum.

Samviskusömum lesendum atlisteinn.is ættu að vera í fersku minni pistlar mínir um Horsepower-kreatínið frá Ultimate Nutrition og Nitrobolon II frá Trec Nutrition, efni sem ég notaði og skrifaði um í fyrra og hitteðfyrra. Hvor tveggju, Hestaflið þó mun fremur, ollu nánast persónuleikabreytingum með því ástandi sem ég var kominn í um hálftíma eftir inntöku æfingaskammtsins en þá langaði mig gjarnan til að rífa World Class til grunna og myrða alla innan dyra…og fara svo í bekkpressuna. Einnig orsakaði Horsepower ofsakláða sem gerði mig stórhættulegan í umferðinni á leið á æfingu. Gagnrýnin prófun fæðubótarefna er ekkert áhlaupaverk.

Kreatínið frá Proteinfabrikken er mildara og veldur hvorki niðurgangi, kláða né ranghugmyndum. Slæmt, myndu einhverjir strax segja, en ég bíð eftir sjödagaáhrifunum svokölluðu sem eru hin raunverulegu áhrif kreatíns. Þau snúast um hvaða bætingar náist fram fyrstu vikuna miðað við að æft sé af miklum metnaði sex daga af sjö – hvílt er á sjöunda degi að ráði biblíunnar.

Ljóst er að efnið frá Próteinfabrikkunni rífur ekkert í, það hefur engin mælanleg áhrif samstundis og það er ekki einu sinni vont kemískt bragð af því. Þvert á móti bragðast það bara hreint guðdómlega út í norskan brómberjasafa sem reyndar er sælgæti. Þetta kreatín kostar 199 norskar krónur í Coop, miðað við 500 gramma dós, og verður að teljast hagstætt. Í Sunkost er verðið 229 krónur. Sami framleiðandi stendur á bak við svokallað Tricreatin sem er fjölliða kreatínblanda og inniheldur sykurreyrsýru (glýkolsýru) en þar er á ferð ávaxtasýra sem margfaldar upptöku efnisins í meltingarvegi. Sumir vilja meina að slík upptaka náist fram með því að drekka kreatínið blandað ávaxtasafa eða einhverjum sætum vökva sem kippir því upp um leið og sykurefnunum í drykknum en kannski markar Tricreatine nýtt upphaf fyrir mannkynið. Hver veit? Þetta efni verður prófað og rætt hér á atlisteinn.is í byrjun ágúst auk þess sem væntanleg er umfjöllun um kúrinn sem nú var að hefjast. Lítið því reglulega inn.
edda
Edda vinkona okkar og samnemandi af norskunámskeiði Mímis í vor er hér í heimsókn með bandarískum lagsmanni sínum Todd (vonandi og sennilega þó ekki Todd Sweeney, the demon barber of Fleet Street). Við hittum þau yfir glösum á Hansen Hjørnet í kvöld og borðuðum í útihluta Hall Toll við höfnina á eftir í glampandi sólskini. Ég fékk mér einstaklega góða lúðu sem þó var svo hroðalega skorin við nögl að ég varð að ná mér í risalambakebab á heimleiðinni til að verða ekki hungurmorða. Sennilega áhrif kreatínsins. Edda pantaði sér hins vegar kræklinga og fékk svo mikið að þau geta borðað þá langt fram á næsta ár svo lengi sem þau eiga frystikistu. Óþolandi þegar gert er svo freklega upp á milli sjávarfangs. Ætla mætti að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra væri vert á Hall Toll. (MYND: Edda mokar kræklingunum í sig.)

Athugasemdir

athugasemdir