Norsk vinnumarkaðssálfræði

norturaiMargt er kyndugt í hinum mikla kýrhaus norskra stjórnunarhátta. Nú er búið að láta pólskukennarann minn geðþekka, Robert Sumera, róa. Nýliðin vika var hans síðasta hjá Nortura eftir tvær framlengingar. Hann er ekki einn um að þurfa frá að hverfa, nú streymir vertíðarstarfsfólkið út í stríðum straumi og vinnudagurinn í sláturhúsinu kemst í það horf sem hann er í allt árið fyrir utan þessa tvo mánuði á haustin. Þá verður frekar rólegt.

Lítið vafðist fyrir yfirmönnum sláturdeildarinnar hvernig hagræða ætti við framleiðslulínuna til að mæta hörmulegu fráhvarfi Roberts. Starfinu hans var einfaldlega bætt á mig ofan á það sem ég hef fyrir. Í dag fékk ég þannig að upplifa þá ágætu skemmtun að klippa hálsliðinn af nokkur hundruð lömbum, grýta frá mér klippunum eftir hvert kvikindi og grípa Norge 111 EFTA-stimpilinn og smella honum sex sinnum á hvern skrokk, læri, bóg og síðu báðum megin, og svo aftur í klippurnar. Þetta er töluvert meiri líkamsrækt en starfið var áður svo það er vafalítið hið besta mál. Ég var reyndar ekki einn um að fá tvöfaldar starfsskyldur í dag og til að koma í veg fyrir algjöra ringulreið var einfaldlega hægt á kjötkrókafæribandinu sem blessuð dýrin hanga í svo allar aðgerðir yrðu viðráðanlegri. Algjört letilíf sem sagt svo ég hlakka bara til síðustu fjögurra daganna minna hjá Nortura.

Stafangur kann að hafa sakleysislegt yfirbragð en hér veður skipulögð glæpastarfsemi þó uppi. Þetta sést til dæmis á því að á meðan Sigurbjörn Bjarnason búfræðingur og rafvirki sat hér að drykkju á laugardagskvöld og lét fyrir berast um nóttina var brotist inn í vinnubílinn hans sem stóð hér rétt fyrir utan húsið. Hliðarrúða farþegamegin var brotin og hurðin svo opnuð. Það merkilega er að þessi skipulagða glæpastarfsemi virðist ekki hafa verið alveg þaulskipulögð. Engu var nefnilega stolið úr bílnum sem var þó fullur af hættulegum rafvirkjagræjum. Sigurbjörn benti sérstaklega á viðnámsmæli nokkurn, svokallaðan ‘megger’, sem hann sagði kosta töluvert meira en bíllinn og lá óhreyfður í framsætinu.

Lögreglan baðst vinsamlegast undan því að mæta á staðinn þegar hún heyrði af þessu ómerkilega innbroti og sagðist einfaldlega ekki hafa mannskap í að sinna slíkum örglæpum. Það skipti svo sem engu máli þar sem um nánast ekkert tjón var að ræða.

Athugasemdir

athugasemdir