Norsk starfamessa á Íslandi

navNorsk arbeids- og velferdsetat, NAV, sem er eins konar Vinnumálastofnun, félagsmálaráðuneyti og Tryggingastofnun undir einu þaki og reyndar mjög sniðugt fyrirbæri, auglýsir nú grimmt svokallaða starfamessu á Íslandi undir slagorðinu Finner du ikke kompetansen hjemme? (finnur þú ekki hæft starfsfólk heima?). Fyrir nokkrum dögum var yfirskriftin reyndar Ansett en Islending (ráddu Íslending) en það hefur sennilega farið fyrir brjóstið á einhverjum.

Málið snýst alla vega um að NAV blæs til starfamessu í Reykjavík helgina 15. – 16. apríl. Á síðu NAV er vitnað í viðtal Þelamerkurtíðinda, Telemarkavisen, við Catherine Holter hjá EURES-deild NAV og er hún ekkert að skafa af hlutunum og lætur hafa þetta eftir sér kinnroðalaust: ‘Noregur er fyrsti valkostur margra Íslendinga, fyrst og fremst vegna svipaðrar menningar og tungumáls. Starfamessan er því kjörið tækifæri fyrir vinnuveitendur sem eiga í erfiðleikum með að finna rétta starfsfólkið í Noregi. Nánast allir þeir Íslendingar sem hafa í hyggju að flytja af landi brott búa yfir mikilli starfsþekkingu, aðlagast samfélaginu fljótt og eru hamhleypur til vinnu [har høy arbeidsmoral, þýði hver sem vill].’

Þessu fylgir fróðleikskorn um ástandið á íslenskum vinnumarkaði og segir (aftur í frábærri þýðingu minni): ‘Fyrir ‘hrunið’ var atvinnuleysi á Íslandi með því minnsta sem þekkist í heiminum, eitt prósent, en er nú 8,6 prósent. Batahorfurnar eru nánast engar í mörgum atvinnugreinum. Fjöldi fjölskyldna er að sligast undan skuldum vegna atvinnuleysis, verðbólgu, hárra skatta og lánsvaxta. Á Íslandi er löng hefð fyrir því að fara utan til náms og starfa og nú horfa margir til útlanda, þar á meðal Noregs, sem möguleika til að koma sér á réttan kjöl á ný.

Greinina í heild má lesa hér en þar er meðal annars gefið upp netfang og sími hjá Ragnhild Synstad, þjónustufulltrúa hjá NAV. Við hittum hana einmitt þegar við heimsóttum þessa sömu starfamessu í Ráðhúsi Reykjavíkur í fyrravor, rétt áður en við fluttum hingað. Þá vorum við um það bil hálfnuð með seinna norskunámskeiðið hjá Mími, gátum talað norsku sem þó var dönskuskotin en skildum hins vegar ekki hvaða norsku sem var, helst varð að tala við okkur á østlandsk sem er sú mállýska sem notuð er í Ósló, algjörlega hreint bókmál sem heyra má í flestum norskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
hvitt
Það vill svo til að Ragnhild er frá Hamar sem er í Heiðmörku, alaustasta fylki Noregs, og starfar á skrifstofu NAV þar sem EURES-fulltrúi. Hún var því auðskilin og gerði okkur þann ómetanlega greiða að gefa okkur upp netfang starfssystur sinnar, hennar Bodil, hér í Stavanger en við vorum frá upphafi ákveðin í að flytja hingað og aðeins hingað. Þetta hefur sennilega verið mikill bjarnargreiði (n. bjørnetjeneste) gagnvart Bodil greyinu en varla hefur nokkur manneskja nokkurn tímann mátt þola aðra eins orrahríð aulaspurninga í tölvupósti og hún mátti sæta frá okkur síðustu tvo mánuðina áður en við fluttum hingað. Var þar fjallað um allt frá því hvaða hverfi í Stavanger væru ákjósanleg til búsetu til þess hvort ég myndi móðga vinnuveitanda með hinu eða þessu orðalagi í atvinnuumsókn. Öllu svaraði hún þó möglunarlaust og ég held að hún hafi engu logið nú þegar ég lít til baka. (MYND: Við á fyrstu dögunum í sumarstarfinu í júní í fyrra. Síðan hefur margt vatn runnið til sjávar/Vicky Doshlaku.)

Hvað sem öðru líður er athyglisvert að sjá þarna á NAV-síðunni greiningu opinberrar stofnunar í Noregi á íslensku þjóðfélagsástandi sem hittir nánast í mark. Annar tilgangur þessa pistils er að hvetja þá Íslendinga, sem eru að velta því fyrir sér að flytja til Noregs, til þess að mæta á starfamessuna og spjalla við þá sem þar eru að kynna sig. Fulltrúar norskra fyrirtækja eru þarna með bása og við fengum alls konar bæklinga og dót frá hóteleiganda nokkrum einhvers staðar norður í ****gati auk þess að spjalla við aðra. Þetta hafði ekkert að segja um þau störf sem við gegnum núna en þarna er fínt að fara til þess að átta sig á umhverfinu og heyra í norskum vinnuveitendum. Eins og ég hef sagt fjölda fólks, sem sent hefur mér fyrirspurnir gegnum síðuna, eru Íslendingar mjög eftirsóttir starfskraftar og hafa forstjórar norskra stórfyrirtækja (Stangeland) látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum að þar fari fólk sem ‘kunni að vinna og standi hnarreist mót norðanvindinum.’. Athugasemd sem myndi sóma sér í hvaða Íslendingasögu sem er.

Athugasemdir

athugasemdir