Nokkur orð milli jóla og nýárs

jesus-satan‘Hvað boðar nýárs blessuð sól?’ spurði séra Matthías Jochumsson í kveðskap sínum. Hann hefur greinilega ekki verið staddur í Stavanger þegar innblásturinn sveif honum í brjóst því jól og áramót hér tengjast sólinni ekki nema að takmörkuðu leyti. Hér rignir sem í sturtu sé staðið upp á dag en það er rík veðurhefð í Stavanger að hressilega rigni á þessum árstíma. Þó er það ekki nema brot af því sem tíska er í Bergen hér rétt norður fyrir. Oft er það þó svo að rofar til um miðjan dag og sér jafnvel til sólar.

Ég fylgdist með á Íslandi fyrir og um jóladagana og sá að þar gerði veður mikil. Þegar ég sat svo á aðfangadag og renndi yfir síður íslenskra fréttamiðla með rauðvínsglas í hönd og kalkún í ofni (jæja, kalkúnabringur, fjöldinn á heimilinu stendur ekki undir heilu dýri) brá mér verulega þegar ég sá fyrirsögnina Þúsundir flykkjast til Betlehem á Vísi. Á undan hafði ég lesið bunka af innlendum fréttum af óveðrinu og alkóhólmettaður heilinn dró fyrst þá ályktun að þúsundir Íslendinga hefðu bara gefist upp, skellt tannbursta og náttfötum ofan í tösku, slegið þessu upp í kæruleysi og drifið sig til Betlehem í jólateitina, sbr. síðara bréf Páls postula til Korintumanna: ‘What happens in Betlehem stays in Betlehem! Kveðja, Palli post.’

Talandi um postula og jólin þá voru þau býsna fín. Við kláruðum gjafakaup á Þorláksmessu þökk sé því að vinnuveitandi Rósu lánaði henni fyrirtækisbíl. Annars hefði þetta að minnsta kosti verið töluvert meira vesen. Ég komst endanlega í jólaskapið þegar ég sat með rauðvínsglas í stofunni, pakkaði síðustu gjöfunum inn með mínum hryllilega pökkunarstíl og hlustaði á norsk jólalög í útvarpinu, Julenissen kommer i kveld…(rétt getið, þetta er Jólasveinninn kemur í kvöld á norsku). Jólahangikjötið frá Húsavík mallaði í pottinum og gaf þennan fullkomna ilm. Hinir dagarnir voru fínir með konfekti, jólabókum, hangikjöti og tilheyrandi en ég þreyti fólk ekki með sögum af þessu, allir hafa sín jól. Þetta voru hins vegar okkar fyrstu jól heima hjá okkur eftir að við hófum sambúð og það var kannski það merkilegasta. Ævaforn fjölskylduuppskrift mín megin frá að kalkúnafyllingu, sem barst með tölvupósti, stóð fyllilega undir sér og varð að algjöru sælgæti í höndum Rósu. Ég sat hjá og veitti ráðgjöf. (MYND: Gerð fyllingar. Eins og sést út um gluggann er tíðafarið ekki alveg eins og maður á að venjast á aðfangadag, 10 stiga hiti og garður nágrannans framsóknargrænn.)
stuffing
Ég er búinn að marghorfa á upptöku af meintum harmi slegnum Norður-Kóreumönnum í Pyongyang við útför Kim Jong-il sem RÚV sýnir í þessari frétt og fengin er frá norðurkóreska ríkissjónvarpinu. Þessi mikla geðshræring er að mínu viti einfaldlega sett á svið og framkvæmd af fámennum hópi samkvæmt skipulagðri áætlun. Flestir viðhafa nákvæmlega sömu hreyfingar og látbragð auk þess sem það er grunsamlega létt verk fyrir einfalda röð af grátandi hermönnum að halda tugþúsundum brjálaðra syrgjenda í skefjum. Þessi myndræna jarðarför er síðasta tromp Kim Jong-il sem ég á að vissu leyti eftir að sakna. Hann var svo skemmtilega brjálaður.

Athugasemdir

athugasemdir