Nágrannar dauðans og tölvuleikir

doomFrétt Ríkisútvarpsins um nýtilkomna nágrannavörslu í sveitarfélaginu Garði á Suðurnesjum í sjónvarpsfréttum klukkan 22 í kvöld vakti athygli mína. Hvort tveggja kom það til vegna þess að ég fagna þessu framtaki, nú þegar innbrotsþjófar fara með oddi og egg um samfélagið, en eins þótti mér merkilegt að almannatengslafrömuðir Garðsins kunna ekki að beygja óákveðna fornafnið hver annar.

Á skilti sem auglýsir átakið stendur nefnilega skýrum stöfum Gætum hvers annars. Tvennt er rangt við þetta: S-inu er ofaukið og kynvísun fornafnsins gengur út á að allir íbúar Garðs séu karlkyns. Það veit ég að eru ósannindi þar sem tengdamóðir mín býr þar og sennilega fleiri konur en hún. Réttast væri að kynna átakið með orðunum Gætum hvort annars. Hvort vísar þar til fleiri kynja en karlkyns aukinheldur sem ein versta ambaga íslenskrar tungu er að skeyta s-inu aftan við hver annar og hvor annar. Sáraeinfalt er að breyta orðaröð í setningunni og segja hvort gætir annars (eða hver gætir annars).

Þar með kemur berlega í ljós að þetta ótrúlega misskilda s kemur aldrei aftan á hver/hvor heldur er einfaldlega afbökun Sinclair Spectrum-kynslóðarinnar sem virðist ekki hafa numið önnur tungumál en forritunarmálið BASIC sem ég lagði sjálfur stund á í sveittum maraþonsetum við lyklaborðið þar sem verðlaunin fyrir margra klukkutíma ritun forritunarmáls voru ekki burðugri en svo að tölvan teiknaði strik þvert yfir skjáinn eða taldi upp í tíu þúsund fyrir framan notandann. Þarna lék ég tölvuleiki á borð við Jet Pac og Bomb Jack I og II og hlaut af mikinn lærdóm í fingrasetningu og notkun stýripinna (e. joy stick). Vafalítið þörf vísindi hvort tveggja.

Fyrst ég ræði tölvuleiki kemst ég ekki hjá því að rifja upp sumarið 1988 þegar við Hilmar Veigar Pétursson, nú forstjóri CCP, og fleiri góðir menn (allt að fimm í einu) vörðum sólbjörtum sumardögum í tólf fermetra herbergi eins okkar við ástundun leikjanna Police Quest og Space Quest þar sem hæfileikar notenda fólust í því hve snöggt þeim var kleift að slá inn fyrirskipanir um hvað persóna þeirra í leiknum ætti að framkvæma. Aldrei hef ég lært meira í ensku og vélritun og það yfir sumar! Þessu fylgdi ótæpilegt saltpilluát með tilheyrandi vindgangi og má því ímynda sér hvernig andrúmsloftið hefur verið þar sem við sátum fimm saman æpandi af spenningi yfir því hver gæti vélritað á mestum hraða og um leið gefið frá sér mest metangas.

Skömmu síðar datt ég út úr tölvuleikjamenningunni en var minntur óþyrmilega á hana þegar ég flutti pistil á Bylgjunni síðasta vetur um að 15 ára Svíi hefði endað á sjúkrahúsi eftir að hann spilaði tölvuleikinn World of Warcraft í 24 klukkustundir samfleytt og neitaði sér um mat og drykk á meðan. Til að taka af öll tvímæli hef ég persónulega ekkert á móti tölvuleikjum en langar að ljúka þessum pistli á að rifja upp ógleymanleg ummæli eins skólabróður Hilmars vinar míns við tölvunarfræðiskor Háskóla Íslands árið 1995 þegar menn ástunduðu hvað mest tölvuleikinn Doom:




Lífið er bjór, pizza og Doom.



Einfaldara verður það ekki.

Athugasemdir

athugasemdir