Mr. Grimsson 1 – Bloomberg 0

bloombergÉg er búinn að hlusta þrisvar á viðtal Maryam Nemazee, hjá sjónvarpi Bloomberg-fréttastofunnar, við Ólaf Ragnar Grímsson í morgun og ég er á leiðinni að hlusta einu sinni enn. Þetta eru bara bókmenntir og ekkert annað. Ég get ekki lagt annað mat á þetta en að forsetinn stingi gjörsamlega upp í fréttamanninn – en ekki með hroka og dónaskap a la Haarde heldur með festu og rökvísi alla leið. Algjör verð-sjá (e. must see) að mínu viti. Mikill munur að fá enskumælandi málsvara í fjölmiðla svona einu sinni.

Svo eru Atli Gísla og eitthvert VG-lið vælandi yfir því í morgun að forsetinn sé í kampavínsbaði fjölmiðla. Hrein og klár della, hann er nánast eini talsmaðurinn sem við eigum sem getur svarað eins og maður í erlendum fjölmiðlum. Ekki heyrist mikið af viti frá vinstri-græningjunum þar. Ég kaus Ólaf Ragnar ekki á sínum tíma, 1996, en hann hefur vaxið mikið í áliti hjá mér síðan. Er íslenski forsetinn eini lýðveldisþjóðhöfðingi heimsins sem á bara að vera einhver sautjánda júní puntudúkka á Álftanesi og búið? Finnst Atla Gísla og félögum það svona skelfilegt að hann opni munninn í fjölmiðlum um hitamál þjóðfélagsins? Ekki finnst mér mikið af viti heyrast frá VG á ögurstundu annað en klassískt baul þeirra um að banna allt og vera á móti öllu. Mjög hresst fólk.
egill helga
Annar Íslendingur í uppáhaldi hjá mér þessa dagana er Egill Helgason, sá rauðhærði sem aldrei sefur. Egill hefur hvárt tveggja haldið uppi linnulausum frétta- og pælingaskrifum á vefsvæði sínu á Eyjunni auk þess að grilla stjórnmálamenn og annað fólk með skoðanir í Silfri sínu á sunnudögum. Mér reiknast til að í þætti gærdagsins hafi mælst lengsta samfellda þögn Egils síðan mælingar hófust á meðan Sigmundur Davíð, Jóhanna og Steingrímur J. vildu hvert annað frækn fjörvi næma ef svo má að orði komast. Fyrir utan öll þjóðmálin stjórnar Egill Kiljunni á RÚV á miðvikudögum þar sem að mínu viti fer fram víðfeðmasta og fordómalausasta umræða samtímans um bækur og bókmenntir.

Nú er ég hættur að skrifa um pólitík hérna, ég lofa því. Það var aldrei meiningin að atlisteinn.is yrði pólitískt leynivopn og mér hundleiðast stjórnmál, get alveg játað það. En stundum þarf að rjúfa hina dimmu þögn.

Á morgun hefst kvöldvaktarvika hjá mér og fylgir þá helgin með í spilunum. Ég verð sem sagt að vinna upp á dag fram að páskafríi en get svo sem ekki kvartað. Löng helgi núna og páskafrí í næstu viku. Kári bróðir, meistarakokkur í Bláa lóninu, er búinn að velja handa mér lambalæri sem er á leiðinni hingað til Noregs í þessum rituðu orðum með honum Rúnari félaga okkar sem hér býr. Því stefnir í notalega páska á þessum bæ. Stavanger stendur tóm um páskahátíðina, hver einasti Norðmaður saltsins virði heldur til Voss og annarra skíðaparadísa til að iðka það sem ég álít næst-tilgangslausasta sportið á eftir golfi. Hér mun því ríkja þögn grafarinnar. Það er ágætt.

Athugasemdir

athugasemdir