Að hálfnuðum Mottumars leggjast þegar þetta er ritað ekki fleiri en 9.000 krónur við nafn áheitasafnara númer 1258. Þetta er frekar döpur frammistaða miðað við hve gott málefnið er, innan við eitt prósent af milljón króna markmiðinu sem lagt var upp með í byrjun og rúmlega helmingur uppsafnaðs fjár kemur frá Afganistan, þó frá þar búsettum Íslendingi, Brynjari Þór Sigmundssyni. Takk Binni, þú ert holdgervingur íslenskrar vitundarvakningar, baráttuanda og sóma. (MYND: The Dark Side of the Mott. Mottan nývöknuð og djöfulleg á sunnudegi en fyrsti kaffisopi dagsins skammt undan.)
Til allrar hamingju hefur mörlandinn þó heila 13 daga til stefnu að bjarga andlitinu (ekki mínu, það er fullseint) og styðja við þarfa baráttu Krabbameinsfélagsins í átaki sínu til kynningar og fræðslu. Ekkert myrkur er svartara en myrkur fáfræðinnar. Stuðningur ykkar er okkar vopn!
Fyrir utan þessa enn sem komið er döpru áheitasöfnun er lítið að frétta af mér. Dagurinn hefur liðið í sólböðum og leti á svölunum fyrir utan að við vorum að enda við að kaupa flugmiða til baka frá Íslandi og hingað úr sumarfríinu. Miðana til Íslands keyptum við einhvern tímann í fyrra hjá SAS og fengum á gjafverði, 650 norskar hvorn miða sem er býsna vel sloppið. Fram undan er páskafrí sem verður sennilega ekki mjög vinnulegið, tvö kvöld í dyravörslu og hugsanlega einn eða tveir dagar hjá NorSea. Þá er farið að hilla undir brennivínsdreitil föstudaginn 30. mars sem verður ekki með öllu illt eftir meinlætalíf síðustu mánaða.