Mögnuð spá um þróun fjölmiðla til 2051

galaxyMiðvikudaginn 25. nóvember 2009 sat ég mína síðustu kennslustund við Háskóla Íslands. Hún var jafnathyglisverð og fyrsta kennslustund við sama skóla 5. september 1993 var svæfandi. Þessi síðasta kennslustund var lokatíminn í málstofu í fjölmiðlafræði hjá prófessor Þorbirni Broddasyni.

Í þessum lokatíma flutti samnemandi minn, Sigríður Ragnarsdóttir, mjög áhugaverðan fyrirlestur um nýja miðla og framtíð þeirra. Sigríður lauk máli sínu með því að sýna okkur þetta stutta myndbrot af YouTube þar sem Philip K. Dick fer á kostum sem sögumaður og spámaður um hvernig net- og boðskiptamiðlun muni á næstu áratugum renna saman í eina sammannlega vitund sem er óhugnanleg en ekki fjarri sanni. Þetta er Prometeus en hann er svonefndur Prosumer, producer og consumer í einum rafrænum líkama. Einkum þyrstir mig að vita hvort Lawrence Lessig verði dómsmálaráðherra Bandaríkjanna árið 2020 eins og þarna er spáð.

Gefið ykkur 05:14 mínútur til að upplifa þetta forvitnilega myndskeið. Það er þess virði.

Að sumu leyti rifjar þetta upp fyrir mér stórkostlega skáldsögu Neal Stephenson frá 1992, Snow Crash, þar sem Stephenson spáir með óhugnanlegri nákvæmni fyrir um sýndarheim net- og rafveruleika í hinum svonefnda Metaverse-heimi. Spádómur hans er óhugnanlega nálægt hinu sanna svo maður spyr sig hve nærri sannleikanum Philip K. Dick höggvi í myndskeiðinu sem vísað er í hér að framan.

Erindi Sigríðar var verðugt veganesti inn í hvirfilbyl próflestrar og frábær lokakennslustund við Háskóla Íslands þar sem ég sæki að vonum ekki tíma aftur úr því sem komið er. Nóg er víst komið.

Athugasemdir

athugasemdir