Mjök erum tregt tungu at hræra…

bragi kristjnsÉg er innilega þakklátur Braga Kristjónssyni bóksala fyrir lofsamlega umfjöllun um fjölskyldu mína í Kilju Egils Helgasonar í gær (skruna þarf til 26:00). Það er stórmerkilegt hvað Bragi er inni í öllum hlutum. Steinunn S. Briem var móðursystir mín og Ragnheiður Briem móðir mín eins og margir vita sennilega. Þá hannaði Gunnlaugur Briem, þriðja systkinið, forsíðuna á BA-ritgerðina mína sem ég skrifaði hjá Helga Guðmundssyni, föður Egils Helgasonar, fyrir tíu árum. Heimurinn er minni en maður heldur. (MYND: Bragi. Höfundur: Heiða/Vísir.is.)

Nú ber svo við að maður fær ekki Bókatíðindi inn um lúguna fyrir jólin enda engar bréfalúgur í Noregi, bara póstkassar sem þarf að sækja allt í. Ég hef hins vegar fregnað að tvær stórmerkilegar bækur komi út á Íslandi um jólin og er fjallað um fíkniefni og tengd atriði í báðum. Höfundar þessara bóka eru báðir gamlir vinnufélagar frá 365, annar yfirmaður minn en hinn samstarfsmaður. Þarna á ég við Martröð millanna eftir Óskar Hrafn Þorvaldsson og Brasilíufangann eftir Jóhannes Kr. Kristjánsson. Önnur er skáldsaga, hin er raunveruleg saga. Svo minni ég auðvitað líka á þau ummæli Jóns Prímusar í Kristnihaldi undir Jökli að sá sem lifir ekki í skáldskap hann lifir ekki af hér á jörðunni, eins og þar stendur.

Ég kom við sögu hvorrar tveggja bókanna, í hvoru tilfelli um sig sem tæknilegur ráðgjafi, þó á ólíkum vettvangi í hvoru umfangi. Aðra bókina hef ég lesið í handriti en hina hlakka ég mikið til að lesa. Án þess að hafa legið í Bókatíðindum get ég fullyrt að báðir höfundarnir eiga fullt erindi til íslenskra lesenda, ég þekki þá báða. Ég hvet því mína lesendur til að lesa Martröð millanna og Brasilíufangann um jólin. Þarna eru á ferð vel skrifaðar bækur eftir menn með góðan grunn…annar þeirra er reyndar KR-ingur en látið það ekki trufla ykkur.

Athugasemdir

athugasemdir