Mitt fyrsta íþróttaveðmál!!!

gunnar nelsoniiBrotið er blað í sögu ferils míns sem spilafíkils en núna í vikunni veðjaði ég í fyrsta sinn á úrslit íþróttakappleiks þegar ég lagði 1.000 norskar krónur á Betsson til höfuðs Gunnari Nelson í bardaganum við Jorge Santiago á eftir. Ekki það að vinningurinn verði hár ef Gunnar fer með sigur af hólmi, sem ég hugsa að hann geri. Fleiri eru greinilega bjartsýnir á framgöngu Íslendingsins því hlutfallið hjá honum á Betsson er 1,39 sem táknar 390 krónur í gróða fyrir mig fari hann með sigur.

Það er þó betra en ekkert og myndi standa alveg undir bíóferð kvöldsins en við ætlum að skella okkur á Die Hard á meðan bardaginn fer fram. Ég treysti á að geta svo horft á þetta út um allt net þegar við komum heim.

Ekki er ein báran stök í þessu máli heldur hófst ferill minn sem Eurojackpot-spilara einnig með látum í gær og er óhætt að segja að ég hafi byrjað á toppnum þar sem ég vann strax í fyrstu atrennu 55 krónur, væntanlega aðeins upphafið að mikilli súpu vinninga.

Almennt spila ég annars bara í Víkingalottóinu og áður í norska innanlandslottóinu en hyggst nú skipta því síðarnefnda út fyrir Eurojackpot og sjá hvernig það þróast. Ég reyni ekkert að berjast gegn þessari fíkn minni en sjúkdómsgreininguna fékk ég í spilafíklaprófinu á heimasíðu SÁÁ. Útkoman úr því var að ég væri klárlega spilafíkill og var ráðlagt að íhuga að leita mér aðstoðar við vanda mínum. Mér nægði að hafa svarað þeirri spurningu játandi hvort ég spilaði reglulega fjárhættuspil en á þeim tíma keypti ég lottó í áskrift og var með einn miða hjá Happdrætti DAS og annan hjá Happdrætti Háskólans án þess að veita þessari spilamennsku almennt mikla athygli, einhverjar krónur komu inn á Visa-kortið þegar ég fékk vinning og spilafíkillinn tók stundum eftir því á yfirlitinu og stundum ekki.

Annars sendi ég baráttukveðjur til Gunna, Jóns Viðars og íslenska föruneytisins á Wembley Arena í kvöld og vitna til gamalla en fullgildra orða Nelsons flotaforingja, England væntir þess að allir menn geri skyldu sína (Ísland í þessu tilfelli auðvitað).

Koma svo Gunni, rúlla þessu upp!

Athugasemdir

athugasemdir