Nú er in skarpa skálmöld komin, eins og segir í Sturlungu. Styrjöld geisar í ConocoPhillips og snýst um hvorki meira né minna en matseðil mötuneytisins. Óskiljanlegt? Kannski, en þó ekki svo búi maður hér.
Norðmenn halda fast í þá hefð sína að neyta matarins “komle” (einnig raspeball eða klubb) á fimmtudögum yfir vetrartímann. Þetta er ansi sérstakur réttur; bútur af saltkjöti, pylsa, gráleitur einhvers konar mjölbolti og rófustappa, öllu saman drekkt í floti af bráðnu smjöri og beikonbitum. Með þessu er höfð baunasúpa. Ekkert af þessu er beinlínis ólystugt eða viðurstyggð en mér er ómögulegt að skilja þessa stórmerkilegu samsetningu alls óskyldra fæðutegunda. Þannig er það bara.
ConocoPhillips, amerískt olíufyrirtæki í Noregi með mörg hundruð ameríska og mörg hundruð norska, indverska, sænska, íslenska og ég veit ekki hverrar þjóðar starfsmenn, reynir að sneiða milli skers og báru með því að bjóða eingöngu upp á komle síðasta fimmtudag hvers mánaðar. Þetta samkomulag hefur gengið án líkamsmeiðinga þar til í dag er Ameríkanar fyrirtækisins fundu út að fimmtudagurinn 28. nóvember ber einmitt upp á hina amerísk-/frönsku þakkargjörðarhátíð.
Gerðu þeir þá þegar vopnabrak og gný mikinn með hóptölvupósti og öðrum óvægnum hernaði og kröfðust þess að kalkún yrði á borðum mötuneytisins 28. nóvember ellegar yrðu dauði og þjáningar hlutskipti Petter Endregaard matráðs til hans dauðadags. Norðmenn fengu veður af þessu og urðu þegar mjög heitir að erlendir búkarlar hygðu lögum að skipa í landi því er kóngur einn saman ætti að ráða, skipuðu Petter að játa komle greinalaust og hafna fuglinum kalkúni er væri útlendur slæðingur og vart í munni hafandi.
Niðurstaðan varð sú að Endregaard beygði sig fyrir afli Obama og hafði komle í matinn í dag til að geta komið kalkúninum að um þakkargjörð. Þar með sveik hann kostgangara sína auðmjúka um ósvikinn norskan eldislax er skyldi á borð borinn í dag samkvæmt matseðli og þótti mörgum Norðmanninum illt og jafnvel dauðasök.
Mitt í öllu þessu sit ég og þykir inn við beinið bráðfyndið, amerísk þjóðernishyggja í Noregi.