Mínar fyrstu kosningar í Noregi

kosningarÍ dag og á morgun ganga Norðmenn að kjörborðinu í sveitar- og fylkisstjórnarkosningum. Ég hef kosningarétt þar sem ég er norrænn ríkisborgari og var búsettur í landinu næstliðinn 30. júní. Eins og sést á meðfylgjandi mynd hafa flokkarnir ekki látið sitt eftir liggja í baráttunni. Það táknar þó ekki að póstkassinn hafi verið stútfullur vikum saman. Ég verð að segja norska póstinum það til hróss að þeir hlífa borgurunum eins og þeir geta. Allir bæklingarnir komu saman í tveimur snyrtilegum umslögum í einum og sama útburðinum. Frábær hugmynd og algjörlega til þess fallin að draga úr kjörleiða en af honum þjáðist ég lengi á Íslandi. Til dæmis nennti ég aldrei að fara og kjósa ef veðrið var leiðinlegt.

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að kjósa Verkamannaflokkinn í dag. Þeim gengur ágætlega að stjórna landinu (annað en fíflunum í systurflokki þeirra á Íslandi) svo ég ætla að stóla á þá í borgarstjórn Stavanger. Reyndar brenna engin sérstök hagsmunamál á mér nema kannski ódýrara brennivín og brú yfir Hafursfjörðinn þar sem hann er mjóstur. Hið síðarnefnda kom til eftir að ég byrjaði í nýju vinnunni uppi í Tananger. Það er rugl að þurfa að krækja fyrir allan fjörðinn og fara yfir brúna við mynni hans þegar ég gæti nánast labbað í vinnuna ef brú væri yfir miðjan fjörð. Ég myndi setja hérna mynd til skýringar ef ég kynni að taka myndir úr Google Maps. Hvernig gerir maður það?
daui
Norski sjálfstæðisflokkurinn Høyre býður upp á akstur á kjörstað í dag. Þar sem ég er með eindæmum sporlatur náungi ætla ég að hringja í Høyre og þiggja skutl til að kjósa Arbeiderpartiet. Svo ætla ég að láta þá skutla mér beint á krána Munken hérna niðri í bæ en þar er tveir fyrir einn af vodka alla daga nema laugardaga milli 19 og 23. Ég mæli með þeirri knæpu en margan sunnudaginn hef ég stungið úr staupi þar við fagra tóna norskra trúbadora. (MYND: Svona skemmta ‘vinir’ mínir sér þegar ég legg mig aðeins í drykkjum. Merkileg saurlífisárátta.)

Hagsmunasamtök heimilanna senda út fjölpóst í dag með yfirskrift sem stingur nokkuð í auga, ‘Við þörfnumst hvors annars’. Þarna er leiðinleg ambaga á ferð. Í fyrsta lagi ætti ekki að nota þarna óákveðna fornafnið ‘hvor’ þar sem það vísar eingöngu til tveggja aðila. Þarna ætti ‘hver’ við sem vísar til þriggja eða fleiri. Þá er beygingin alröng. Væru þetta tveir aðilar ætti að standa ‘Við þörfnumst hvor annars’ en ætti þetta við um hóp væri réttilega skrifað ‘Við þörfnumst hvert annars’ ef um hóp af báðum kynjum væri að ræða (sem ég geri ráð fyrir að sé) en ‘Við þörfnumst hver annars’ væru það eintómir karlmenn og ‘Við þörfnumst hver annarrar’ væru eintómar konur í hópnum. Hér ætti því klárlega að nota orðalagið ‘Við þörfnumst hvert annars’, ekki ‘hvors annars’. (MYND: Bræðurnir Ásgeir og Elías Elíassynir (Ásgeir hægra megin) eru þekktir fyrir kerskni sína á kostnað náungans. Takið eftir einbeittum drykkjuvilja mínum, ég held á glasinu þrátt fyrir tiltölulega andlega fjarvist.)
dauiii
Auðvelt er að breyta orðaröðinni til að átta sig betur á beygingu óákveðinna fornafna og segja til dæmis ‘hvert þarfnast annars’ eða ‘hvort þarfnast annars’. Kemur þá berlega í ljós að s-ending er aldrei á þessum fornöfnum. Hún getur hins vegar komið á spurnarfornafnið hver/hvor og er því gjarnan ruglað saman. Dæmi: ‘Hvers á ég að gjalda?’ Þau orð gæti ég gert að mínum nú, 11. september 2011. Hvers á ég að gjalda???

Athugasemdir

athugasemdir