Miðnet

Vefarinn mikli

Hann er reyndar ekki frá Kasmír, snillingurinn sem heldur utan um tæknihliðina á vefsetri sannleikans, atlisteinn.is. Öllu heldur er hann frá Egilsstöðum og gengur undir nafninu Ríkharður Brynjólfsson. Rikka kynntist ég þegar við störfuðum saman hjá tollstjóranum í Reykjavík, hann sinnti þar netumsjón af alkunnu listfengi sínu en síðar hóf hann sólóferilinn eins og margir góðir listamenn og stofnaði Miðnet, rafræna herdeild sem sér ekki vandamálin fyrir lausnunum.

Ég dreg enga fjöður yfir það að Rikki á heiðurinn af hönnun og öllum glæsileika atlisteinn.is. Hann réðst í verkefnið eins og honum einum er lagið og fór þetta á æðruleysinu eins og KK. Brjálæðislegum tillögum mínum var hafnað kurteislega og af þessari furðulegu blöndu af hógværð og lítillæti sem Rikki hefur tileinkað sér með löngu samneyti sínu við fólk sem skilur ekki tölvur og mun aldrei skilja þær. Fólki eins og mér.

Eftir rafrænar fæðingarhríðir pírði frumburðurinn sannleiksþyrst augu sín framan í veröld nýja og góða 1. febrúar 2009, daginn sem tjáningarþörfin sigraði þögnina endanlega. Ég fer ekki í neinar grafgötur með það að atlisteinn.is er í góðum höndum og hæfum. Rikki ruddi hindrununum úr vegi einni af annarri og fyrr en varði réð ég yfir eigin vefsetri og það sem meira er, fullkomlega skiljanlegu og aulaheldu umsjónarkerfi á bak við það.

Þetta er ekki öllum gefið en þetta er ástæðan fyrir því að ég legg líf mitt og minnar heimasíðu óhikað í hendur Ríkharðs Brynjólfssonar og Miðnets.

Miðnet – þegar annað dugir ekki til
www.midnet.is

Athugasemdir

athugasemdir