Það er að sjálfsögðu Peter Garrett sem hér er sagt frá, aðalsprauta gömlu brýnanna í Midnight Oil í næstum þrjá áratugi, frá 1973 til 2002. Garrett fór af einu sviðinu á annað þegar olían lagði upp laupana og var kosinn á þing árið 2004. Þremur árum síðar var hann svo skipaður umhverfisráðherra Ástralíu og gegnir því embætti nú.
Ástralar hafa ekki átt sjö dagana sæla eftir að kjarr- og skógareldar geisuðu þar nú fyrir skemmstu og urðu tæplega 200 manns að bana auk þess að svipta þúsundir heimilum sínum. Um helgina fer fram heilmikil fjáröflun til styrktar þeim sem eiga um sárt að binda eftir hörmungarnar og koma liðsmenn Midnight Oil saman í þessu skyni og efna til tónleika, að sjálfsögðu með hæstvirtan umhverfisráðherra í fararbroddi.
Sveitin hélt tvenna upphitunartónleika í vikunni og sýndu drengirnir þar að þeir hefðu engu gleymt enda ekki nema fjögur ár síðan þeir héldu tónleika til styrktar fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Indlandshafi. Garrett segist ánægður með að fá að koma fram með sveitinni aftur. Eina svekkelsið sé að hann sé sá eini sem þurfi að fara í vinnuna daginn eftir.
Nú er bara spurningin hvort ráðherranum þyki við hæfi að syngja um rúmbrunann gamalkunna, Beds are burning, fyrir fórnarlömb skógareldanna (ég kunni ekki við að hafa þessa kolsvörtu gamansemi með þegar ég flutti þennan pistil á Bylgjunni í morgun en lauma henni hér).